Nokkur stærstu ríki Evrópu hafa birt tölur um hagvöxt á öðrum ársfjórðungi ársins 2017. Hagvöxtur á Spáni á tímabilinu var 0,9% á ársgrundvelli, franska hagkerfið óx um 0,5% á tímabilinu. Hagvöxtur í nágrannalandi okkar, Svíþjóð, var einnig öflugur, en hann var 1,7%. Hagvöxtur í Austurríki var 0,8% á ársfjórðungnum.

Spánn: 0,9%

Hagvöxtur á Spáni á öðrum ársfjórðungi var 0,9% samkvæmt tölum spænsku hagstofunnar. Nú hefur spænski efnahagurinn náð þeirri stærð sem að hann var í fyrir efnahagshrunið árið 2008. Innflutningur hefur aukist í ríkinu á Íberíuskaganum og hefur atvinnuleysi minnkað á síðustu mánuðum. Það var áður 25%, en er nú orðið 17,2%.

Spænsk stjórnvöld gera ráð fyrir því að hagvöxtur árið 2017 verði 3%. Í frétt BBC um málið er haft eftir sérfræðingi hjá IHS Markit að aukin einkaneysla hafi ýtt undir hagvöxt á Spáni, en einnig hafi atvinnusköpun haft jákvæð áhrif.

Frakkland: 0,5%

Hagvöxtur í Frakklandi á öðrum ársfjórðungi var 0,5%, og virðist vöxturinn nokkuð stöðugur, en hagvöxtur mældist einnig 0,5% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017. Útflutningur jókst í Frakklandi á tímabilinu og bjartsýni jókst hjá fjárfestum eftir að Emmanuel Macron, var kjörinn forseti Frakklands, þó að dregið hafi nokkuð úr bjartsýni á allra síðustu vikum. Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði 1,6% á þesssu ári. Ef að það gengur eftir verður það mesti hagvöxtur í Frakklandi í sex ár.

Svíþjóð: 1,7%

Samkvæmt bráðabirgðagögnum sænsku hagstofunnar var 1,7% hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi ársins 2017 í Svíþjóð. Í frétt Guardian er haft eftir Torbjörn Isaksson hjá Nordea Markets að vöxturinn sé „brjálæðislega sterkur.“ Hann bendir á að einkaneysla í Svíþjóð hafi ýtt undir hagvöxt. Spá sænska seðlabankans fyrir hagvöxt á öðrum ársfjórðungi var 0,7% og var spá Nordea 1,1%. En rauntölurnar voru langt yfir öllum spám. Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur árið 2017 í Svíþjóð verði um 4%.

Einnig var 0,8% hagvöxtur í Austurríki, sér í lagi vegna aukningu í útflutningi sem jókst um 2,4% á öðrum ársfjórðungi. Aukinnar bjartsýni gætir innan evrusvæðisins.