Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowsky, sem situr á þingi fyrir hönd Alaska, fer ekki dult með andstöðu sína við að þingið leyfi sölu á innfluttum erfðabreyttum laxi í Bandaríkjunum.

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið FDA leyfði árið 2015 sölu á erfðabreyttum laxi frá fyrirtækinu Aquabounty Technologies, en Bandaríkjaþing kom í veg fyrir þau viðskipti með því að samþykkja að erfðabreyttan lax megi ekki flytja inn til Bandaríkjanna nema hann sé sérstaklega merktur.

Þetta var gert með því að bæta ákvæði inn í lög um fjárveitingar til matvælaeftirlitsins um að stofnunin megi ekki gefa út leyfi til fyrirtækisins nema hún geri jafnframt kröfu um að afurðirnar verði merktar þannig að neytendur sjái að þar sé um erfðabreyttan lax að ræða.

Það var Murkowsky, þingmaðurinn frá Alaska, sem hafði forystu um að koma þessu ákvæði inn í lögin á síðasta ári. Og nú í síðustu viku samþykkti djárveitingarnefnd öldungadeildar að halda þessu ákvæði inni, nú þegar samþykkja þarf fjárveitingu fyrir næsta ár.

„Ég hef lengi verið algelega andvíg því að leyfa erfðabreyttan lax,“ skrifaði Murkowsky á Twittersíðu sína. „Alaska mun ekki samþykkja að erfðabreyttur lax verði seldur án skýrra merkinga.“

Fyrirtækið Aquabounty Technologies er með skrifstofur í Bandaríkjunum en laxeldið fer fram í Kanada og Panama. Kanada hefur í tvö ár heimilað sölu á laxinum til neyslu þar í landi.