WebMo Design er nýstofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í vef- og appþróun auk þess að bjóða upp á ráðgjöf í stafrænni markaðssetningu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Meðal þess sem WebMo Design vinnur að með viðskiptavinum er hönnun og uppsetning ytri og innri vefja, þróun og forritun snjalltækjalausna með áherslu á fallega hönnun og góða notendavirkni. Þá býður WebMo Design upp á ráðgjöf við stafræna markaðssetningu af ýmsum toga, t.d. á samfélagsmiðlum, með póstkerfum og leitarvélabestun.

„WebMo Design leggur sérstaka áherslu á að nýta þá miklu þekkingu og reynslu sem fyrirtækið býr yfir til að greina þarfir viðskiptavina og finna bestu lausnina í hvert sinn til að markmiðum verði náð á hagkvæman hátt. Með það í huga er WebMo Design til dæmis ekki bundið við eina ákveðna kerfislausn þegar kemur að vefsíðugerð heldur leggur áherslu á að vinna með viðskiptavinum til að finna þá veflausn sem hentar best fyrir hvern og einn.

Þessi sérstaða fyrirtækisins þýðir að hver og einn á að geta fengið lausn við sitt hæfi. Við þetta bætist að WebMo Design býður upp á fyrsta flokks vefhýsingu í samstarfi við upplýsingatæknifyrirtækið Reyk Tech sem hefur höfuðstöðvar í New York og sérhæfir sig í skýjalausnum, big data og margs konar tækniráðgjöf.

Í teymið að baki WebMo Design raðast saman einstaklingar með langa reynslu og þekkingu af stafrænum lausnum og markaðssetningu. Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri hefur 18 ára reynslu af stjórnun, markaðssetningu og stafrænum lausnum, m.a. í fjármálageiranum en hann kemur til WebMo Design úr stöðu markaðsstjóra hjá RB. Jón Hilmar Gústafsson hefur yfirgripsmikla þekkingu á vef- og snjalltækjalausnum og hefur undanfarin ár stýrt snjalltækjalausnum Handpoint. Vef- og samfélagsmiðlasérfræðingurinn Sverrir Helgason hefur unnið með bæði innlendum og alþjóðlegum viðskiptavinum að stafrænum markaðssetningarherferðum, meðal annars í Mílanó á Ítalíu, en hann kemur nú til Webmo Design frá auglýsingastofunni Árnasonum. Þá hefur Gunnlaugur Hrannar Jónsson margra ára reynslu og þekkingu á fjármálum fyrirtækja,“ segir í fréttatilkynningunni.