Eigendur rafrænna skilríkja geta frá og með deginum í dag stofnað til viðskipta við Arion banka í gegnum netið á aðeins nokkrum mínútum án þess að fara í útibú.

Tímamót sem spari tíma og fyrirhöfn

Segir í fréttatilkynningu frá Arion banka að um tímamót sé að ræða og þessi nýja leið spari tíma og fyrirhöfn.

„Með þessari nýju rafrænu leið er hægt að stofna til viðskipta og velja á milli helstu þjónustuleiða bankans, eins og veltureikninga, debetkorta, sparnaðarreikninga og kreditkorta. Aðgangur að netbanka stofnast sjálfkrafa sem og aðgangur að Arion banka appinu, fyrir þá sem sækja sér appið,“ segir í tilkynningunni.

Þeir sem eru orðnir 16 ára gamlir og eiga rafræn skilríki auk þess að vera búsettir á Íslandi geta farið inn á vef bankans og stofnað með þessum hætti til viðskipta við hann.

Hægt að stofna til viðskipta heima í stofu

„Við vinnum stöðugt að því að bæta þjónustu við okkar viðskiptavini og nú bjóðum við fólki að stofna til viðskipta við bankann með einfaldari hætti en hingað til hefur verið mögulegt. Hægt er að stofna til viðskiptanna heima í stofu, velja sér til dæmis debetkort og kreditkort á aðeins örfáum mínútum,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og heldur áfram.

“Bankaviðskipti geta á stundum verið flókin og tímafrek enda gilda umfangsmiklar reglur um fjármálafyrirtæki en tilkoma rafrænna undirskrifta gerir okkur kleift að einfalda og bæta þjónustuna við viðskiptavini. Við munum halda áfram á þessari braut og bjóða viðskiptavinum okkar stafræna bankaþjónustu í auknum mæli og þannig auðvelda þeim að sinna sínum fjármálum með þægilegum hætti.“