Eyrir Invest hf. hefur selt 15 milljón hluti í Marel hf. að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu, en kaupendur voru MSD Partners L.P. sem eru með kaupunum orðnir sjöundi stærsti hluthafi í Marel.

MSD Partners er fjárfestingarfélag sem leitt er af MSD Capital, fyrirtækis sem heldur utan um eignir Michael Dell, stofnanda og forstjóra tölvufyrirtækisins Dell Technologies, og fjölskyldu hans.

„Eyrir er eftir sem áður stærsti hluthafi Marel með yfir 200 milljón hluti eða um 27,2% af útgefnum hlutum," segir í tilkynningunni.

„Eyrir Invest er langtímafjárfestir og hefur verið kjölfestufjárfestir í Marel síðan 2005. Marel starfar samkvæmt langtímastefnu sinni og nýleg kaup félagsins á MPS heppnuðust vel.

Eyrir hefur mikla trú á möguleikum Marel til áframhaldandi vaxtar sem og getu félagsins til að skila góðri afkomu. Eyrir hyggst áfram vera kjölfestufjárfestir í Marel.

Í framhaldi af viðskiptunum hefur stjórn Eyris Invest heimilað stjórnendum félagsins að innleysa B-hluti félagsins. Fjárhagsstaða Eyris er sterk. Eyrir Invest er langtímafjárfestir með þá stefnu að styðja við alþjóðleg iðnfyrirtæki og sprotafyrirtæki í vexti.

MSD Partners, L.P., sem skráð er hjá SEC í Bandaríkjunum sem fjármálaráðgjafi, var stofnað árið 2009 af eigendum MSD Capital, L.P. til að gera lokuðum hópi fjárfesta kleift að taka þátt í fjárfestingum sem MSD Capital skipuleggur.

MSD Capital var stofnað árið 1998 til að stýra eignum Michael Dell og fjölskyldu hans."