Stórveldið bar skaða af þátttöku sinni í Konunglega kvikmyndafélaginu sem kom tveimur sjónvarpsstöðvum á laggirnar sem starfræktar voru um stutt skeið fyrr á árinu. Stórveldið átti 15% hlut í félaginu. Hugi Halldórsson, stofnandi og einn eigenda Stórveldisins, segir tenginguna hafa skaðað bæði ímynd Stórveldisins og fjárhag. Hann bendir þó á að fjárhagslegt tjón sé ekki stórvægilegt og hafi það ekki teljandi áhrif á reksturinn.

„Það er töluverður misskilningur í gangi um að Stórveldið hafi stofnað sjónvarpsstöðvarnar. Nafn Stórveldisins var notað til að ljá sjónvarpsstöðvunum aukið vægi, en hlutverk félagsins hafi þó eingöngu verið að framleiða efni, sem upphaflega hafi átt að senda út á netinu, að sögn Huga. „Ég ætla samt ekki að fría mig ábyrgð,“ segir hann.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa 365 á Konunglega kvikmyndafélaginu segir að „aðilar hafi verið of bjartsýnir við gerð áætlana um auglýsingatekjur auk þess að rekstrarkostnaður og fjárfestingar í tækjum og búnaði hafi orðið mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir. Tekjuöflun félagsins hafi því brugðist og flest bent til þess að áhorf stöðvanna hafi verið lítið sem ekkert.“ Því hafi farið eins og raun ber vitni. Fram kemur í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni að Hugi hafi keypt hluti þeirra Sigmars Vilhjálmssonar og Jóhannesar Ásbjörnssonar í Stórveldinu Þeir áttu saman tæpan 40% hlut í því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .