Reiknistofa bankanna (RB) er eitt elsta tæknifyrirtæki landsins. Það var stofnað árið 1973 og hlutverk þess þá var að gera íslenskum fjármálafyrirtækjum kleift að tæknivæðast á öruggan og hagkvæman hátt. Þótt kjarninn í starfsemi RB hafi ekki breyst þá hafa hlutverk og áherslur RB tekið miklum breytingum á síðustu árum. Friðrik Þór Snorrason tók við sem forstjóri fyrirtækisins árið 2011 en fyrir þann tíma hafði fyrirtækið m.a. átt lykilþátt í að búa til þrjá nýja banka yfir nótt á tímum efnahagshrunsins.

Hvernig voru aðstæður fyrir RB þegar efnahagshrunið var árið 2008?

„Það sem gerðist á þessum tíma var að á vegum Seðlabankans var settur í gang lítill hópur sem vann alla helgina 3. og 4. október 2008 við að undirbúa aðgerðir til að takast á við þær aðstæður að eitt eða fleiri fjármálafyrirtæki yrðu mögulega óstarfhæf í kjölfar helgarinnar,“ segir Friðrik.

„Markmiðið Seðlabankans var að tryggja óhindrað aðgengi innstæðueigenda að innstæðum og fulla virkni innlendrar greiðslumiðlunar og RB átti virkan þátt í því starfi. Í þessum hópi Seðlabankans voru örfáir einstaklingar frá RB sem í samstarfi við starfsmenn Seðlabankans tóku það að sér að undirbúa þetta tæknilega séð. Þessi hópur útfærði yfir helgina 3.-4. október 2008 lausn sem dugði til flytja allar innstæður yfir í nýja banka ef til þess kæmi að þeir gömlu yrðu óstarfhæfir. Í kjölfar ákvörðunar FME skömmu síðar um stofnun nýrra banka flutti RB síðan í samvinnu við Seðlabankann innstæður frá gömlu bönkunum yfir til nýrra á nokkrum mínútum um miðja nótt. Markmið um fulla virkni innlendrar greiðslumiðlunar náðist að undanskyldum þeim 15 mínútum sem tók að flytja allar innstæður hvers banka og það er án efa einstakt á heimsvísu. Þetta er hin ósagða saga úr hruninu í raun og veru og mjög merkilegt að það hafi tekist að halda uppi greiðslumiðlun í landinu á þessum tíma þegar hver bankinn féll á fætur öðrum.“

„Hin sagan sem er líka ósögð eru tilburðir erlendu kortasamsteypnanna til að loka greiðslukortum á Íslandi vegna ótta um að útgefendur kortanna, þ.e. bankarnir, gætu ekki gert upp við færsluhirða sem þurftu að standa skil á greiðslum til kaupmanna. Sú hótun náði í reynd aðeins til kreditkortanna því debetkortakerfið sem búið var til hjá RB var að fullu undir innlendri stjórn þannig að erlendu kortasamsteypurnar gátu ekki gripið til lokunaraðgerða hvað þau varðar. Debetkortakerfið er í raun innlent kortakerfi þó að það sé með merki á sér frá erlendu kortasamsteypunum. Því var hægt að tryggja að debetkortin myndu virka áfram á Íslandi þó að á tímabili hafi litið út fyrir að lokað yrði á notkun þeirra erlendis. Seðlabankanum tókst þessa sömu helgi að koma í veg fyrir bæði lokun kreditkorta og tryggja fulla virkni debetkortanna erlendis. Þetta voru tveir vinklar á því að almenningi var tryggður aðgangur að innstæðum sínum og að innlend greiðslumiðlun hélst virk þrátt fyrir önnur óþægindi og þann fjárhagslega skaða sem af hruninu leiddi. Það gat farið og keypt vörur og þjónustu. Hefði þessi starfsemi ekki verið til staðar, þá værum við mögulega að tala um annars konar byltingu en búsáhaldabyltingu.“

Nánar er rætt við Friðrik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .