Samtök verslunar- og þjónustu (SVÞ) og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST. Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðenda þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar voru til hennar er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum tveimur.

„Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum,“ segir meðal annars í tilkynningu frá SVÞ og Neytendasamtökunum.

Því hafa SVÞ og Neytendasamtökin sent frá sér sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldi matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitstörfum sínum. „Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu,“ segir að lokum í tilkynningunni.