Brandenburg var stofnuð árið 2012 en þrátt fyrir stuttan líftíma auglýsingastofunnar hafa mörg verkefni á hennar vegum vakið mikla athygli. Spurður að því hvort það séu einhver verkefni sem hann sé stoltari af en önnur segir Ragnar að fyrsta auglýsing þeirra fyrir Wow air hafi verið sérstaklega eftirminnileg.

„Þar vantaði hugmynd til að negla það inn að það væri komið nýtt flugfélag og að það héti Wow. Það þurfti að vera á allra vörum frá fyrsta degi. Rauði þráðurinn í markaðssetningu fyrir vörumerkið var að það þyrfti að vera „Wow“ í öllu því sem við vorum að gera.

Þess vegna þurftum við að koma með sjónvarpsauglýsingu sem myndi strax vekja athygli vegna þess að við höfðum líka ekki mikið fjármagn. Þá datt okkur í hug að endurgera tónlistarmyndbandið á bak við titillag Top Gun myndarinnar, með gítarsóló og allt heila klabbið. Það var farið í það að selja þeim það og eftir nokkra umræðu þá ákváðu þeir að slá til. Það þurfti bara nokkrar birtingar í sjónvarpi og svo dreifði hún sér mjög vel á netinu. Það er líka það sem er að gerast núna að þú ert að vinna með hefðbundna miðla og samfélagsmiðla samtímis.

Það er eins með dillibossavídeóið í tengslum við Mottumars. Við höfum ekki mikið fjármagn til að birta það í sjónvarpi en sú auglýsing hefur náð að dreifa sér vel á netinu, með um 160.000 áhorf. Bara svoleiðis hugmyndir eru gríðarlega verðmætar og hafa sparað Krabbameinsfélaginu stórfé í birtingu. Almennt viljum við láta verkin tala og búa til eitthvað nýtt og ferskt í hvert skipti. Enda enginn skortur á hugmyndaauðgi og krafti hjá okkur,“ segir Ragnar.

Fyrsta auglýsing Brandenburg fyrir Wow air.

Nánar er rætt við Ragnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .