Óhætt er að segja að fjarskiptafyrirtæki á Íslandi hafi fundið mikið fyrir aukinni samkeppni og launahækkunum. Orri Hauksson, forstjóri Símans, segist samt sem áður vera stoltur af afrakstri síðasta árs í tilkynningu sem barst frá Símanum eftir lokun markaða.

Smærra félag, minni tekjur

Samkvæmt uppgjöri félagsins námu tekjur á fjórða ársfjórðungi 2016 7.945 milljónum króna. Félagið var þó með tekjur upp á ríflega 8.236 milljónir á sama tímabili árið 2015. Samdráttinn má þó skýra með sölu á dótturfélögunum Staka og Talentu.

Rekstrarhagnaðurinn jókst

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam þá 2.103 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2016, samanborið við 1.654 milljónir króna á sama tímabili 2015.

EBITDA hlutfallið nam 26,5% fyrir fjórða ársfjórðung 2016 en 20,1% á sama tímabili 2015.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2016 nam þá 601 milljón, samanborið við 679 milljónir árið áður.

Félagið fjárhagslega sterkt

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 2.241 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2016, samanborið við 1.047 milljónir króna á sama tímabili 2015. Eftir vexti og skatta var handbært fé frá rekstri 2.106 milljónir og þar með um 1.052 milljónum krónum hærra en árið 2015.

Vaxtaberandi skuldir hafa lækkað milli ára og vor hreinar vaxtaberandi skuldir 19,3 milljarðar króna í lok árs 2016, samanborið við 20,1 milljarð króna árið 2015.

Eiginfjárhlutfall Símans nemur nú 53,5% og er eigið féð 34,3 milljarðar króna.

Bjartsýnn á nýja árið

Í tilkynningunni segir Orri:

„Við hjá Símanum horfum stolt á afrakstur síðasta árs. Míla náði takmarki sínu um að veita 30 þúsund heimilum tækifæri á ljósleiðaratengingu fyrir árslok. Sensa átti veltumesta ár sitt frá upphafi. Síminn hélt vel stöðu sinni á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði ásamt því að heildsölustarfsemi gekk vel. Þrýstingur var hins vegar á einingaverð. Rekstrarkostnaður samstæðunnar hefur nú á einu ári verið lækkaður um ríflega 800 milljónir króna á ársgrundvelli.

Árið hófst með krefjandi hætti. Verð lækkaði bratt á lykilvörum og laun hækkuðu langt umfram áætlanir. Gripið var til fjölmargra aðgerða til hagræðingar og meðal annars fækkaði starfsfólki Símans hf. um 14% á árinu. Þessi ólgusjór kom þó ekki í veg fyrir samheldni innan Símans og skýrist árangurinn á síðari hluta ársins af einbeitni starfsfólks við að ná settum markmiðum.

Sala dótturfélaga á árinu skerpti samstæðuna, kjarni hennar felst nú í þremur stærstu fyrirtækjunum, Símanum, Mílu og Sensa. Rekstur tveggja smárra dótturfélaga, On-Waves og Sensa DK, gekk illa á árinu og drógu þau rekstrarárangur samstæðunnar niður. Neikvæð áhrif þessara eininga verða mun minni á þessu ári.

Við horfum bjartsýn á nýja árið. Fjárfest var markvisst síðustu mánuði ársins og á meiri hraða en framan af ári. Sterkt vöruframboð Símans fékk verðskuldaða athygli á markaðnum. Samanburður seinni helminga síðustu tveggja ára sýnir glöggt að samstæðan er á réttri leið.

Síminn státar nú af nýlegri viðurkenningu fyrir hraða á farsímanetinu, vaxandi vinsældum sjónvarpsþjónustu Símans, öflugum innviðum og samkeppnishæfu verði."