Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að í haust sé stefnt að því að hefja framkvæmdir við stækkun Grand Hótels á Blómavalsreitnum. Þar er gert ráð fyrir 130 nýjum herbergjum. Íslandshótel munu einnig byggja ríflega 100 nýjar íbúðir á þessu svæði. Áætlaður kostnaður við þessa framkvæmd er um 14 milljarðar króna. Íslandshótel reka í dag 18 hótel um allt land.

„Þá stefnum við að því að byggja nýtt hótel á Lækjargötu, þar sem Íslandsbanki var til húsa í mörg ár og Iðnaðarbankinn þar á undan. Á því svæði stefnum við að því að opna fjögurra stjörnu hótel sem verður 120 herbergi. Þessi framkvæmd gæti hlaupið 3,5 til 4 milljörðum króna."

Stefnt er að því að opna þessi tvö hótel árið 2020 til 2021. Þar með er ekki öll sagan sögð því Íslandshótel stefna einnig að því að stækka Fosshótel Baron, á horni Skúlagötu og Barónsstígs. "Þar stefnum við að því að bæta við allt að 120 herbergjum. Ef allt gengur að óskum gætum við hafi framkvæmdir þar á næsta ári en ég þori ekki segja hvenær þeim lýkur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .