Ég er mjög spennt fyrir því að hefja störf hjá Kviku, sem mér þykir vera einstaklega spennandi fyrirtæki," segir Þórdís Anna Oddsdóttir, sem nýlega var ráðin inn í fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka og mun hún hefja störf á næstu vikum.

„Hjá Kviku er samankominn hópur af mjög hæfileikaríku og reynslumiklu fólki sem ég hlakka mikið til að vinna með. Ég er raun að skipta um bransa og fer úr fluggeiranum yfir í fjármálageirann, sem býður upp á tækifæri til að læra eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir. Mér líst mjög vel á að vera að fara í fyrirtækjaráðgjöf, þar sem mér þykir skemmtilegt að vera í miklum samskiptum við fólk. Þarna reynir á samvinnu og mannleg samskipti, sem heillar mig mjög mikið. Teymið sem ég er að koma inn í er frábært og fjölmörg spennandi tækifæri og verkefni framundan hjá fyrirtækinu," segir hún.

Undanfarin ár hefur Þórdís starfað hjá Icelandair. Hún segist hafa notið tímans hjá Icelandair og að hún muni koma til með að sakna samstarfsfélaga sinna mikið.

Þórdís býr í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt átta ára syni sínum. Hún á tvo bræður á svipuðum aldri og segir Þórdís að þau systkinin séu miklir vinir. „Við fjölskyldan erum miklir Vesturbæingar. Mamma, pabbi, bræður mínir og makar og börnin þeirra búa öll í göngufjarlægð frá okkur. Það er mikill samgangur okkar á milli. Sonur minn er grjótharður KR-ingur og æfir fótbolta. Ég er svo hægt og rólega að reyna að koma honum inn í hestamennskuna," segir Þórdís kímin.

Í frítíma sínum er Þórdís á kafi í hestaíþróttum og er í hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði.

„Ég á fjóra reiðhesta og hef mikinn áhuga á íslenska hestinum. Ég æfi einnig víkingaþrek hjá Mjölni og hreyfing skiptir mig mjög miklu máli sem mótvægi við mikilli skrifstofuvinnu. Svo fer ég reglulega á snjóbretti og mér þykir fátt skemmtilegra en að fara í skíðaferðir til útlanda. Eftir að hafa starfað hjá Icelandair í nokkur ár hef ég fengið mikinn áhuga á flugbransanum og því að ferðast um heiminn. Ég hef ferðast mikið á áfangastaði Icelandair og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. New York er uppáhaldsborgin mín. Síðastliðin ár hef ég farið þangað mjög reglulega, ýmist í vinnuferðir eða stuttar helgarferðir með vinum eða ættingjum. Við pabbi erum svo með þá hefð að fara alltaf saman í feðginaferð þangað á hverju hausti. Í þessum ferðum njótum við þess að eyða tíma saman, röltum um borgina og kíkjum meðal annars á ljósmyndasýningar."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .