Óskar Magnússon, útgefandi Árvakurs, og Elvar Eyvindsson, fyrrverandi sveitarstjóri Rangárþings eystra, hafa stofnað félagið Aurasel ehf. og er tilgangur þess heildverslun, innflutningur, verslun og viðskipti. „Þetta er aðallega okkur Elvari til skemmtunar,“ segir Óskar.

„Við höfum verið að flytja inn hlið- og gerðisgrindur fyrir búfénað frá Kína og er félagið stofnað utan um þá starfsemi, þótt hún sé ekki umfangsmikil. Við höfum til gamans kallað félagið Stóra rangæska hliðfélagið en héldum að Kínverjar ættu ef til vill erfitt með það nafn. Aurasel er þó styttra, en nafnið kemur frá eyðibýli í Landeyjunum þaðan sem Elvar á rætur sínar að rekja.“