Vísitala leiguverðs hækkaði í nóvember um 0,8% frá fyrri mánuði og endaði hún í 160,1 stigi. Hefur vísitalan hækkað um 3,5% síðastliðna 3 mánuði en um 8,3% síðastliðna 12 mánuði.

Vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs og er íbúðarhúsnæðinu skipt í flokka eftir herbergjafjölda og staðsetningu. Í leigugagnagrunni Þjóðskrár sem tekur upplýsingarnar saman eru 593 samningar, sem þinglýstir voru í nóvember 2016.

Hæsta leiguverðið í vesturhluta borgarinnar

Hæsta leiguverðið var í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarnes eða 3.551 á hvern fermetra í stúdíóíbúð.

Dýrasta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúð er 2.715 krónur á fermetra í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar.

Fyrir þriggja herbergja íbúð er Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarnes aftur orðinn dýrastur með 2.288 krónur á fermetra en fyrir 4-5 herbergja íbúð er dýrast að leigja í Kópavogi eða 2.010 krónur fermetrinn.