Mun meira hefur selst af sólarlandaferðum til Íslendinga í ár heldur en á sama tíma í fyrra, en þetta segja forsvarsmenn helstu ferðaskrifstofanna í samtali við Túrista .

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir fyrirtækið hafa selt tæplega 30% fleiri ferðir en á sama tíma í fyrra. Hann segir að sumir áfangastaðir séu nánast að fyllast í júlímánuði, en meira sé af lausum sætum í ágúst.

Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nazar, sem býður upp á Tyrklandsreisur frá öllum Norðurlöndum, segir í samtali við Túrista að salan á Íslandi hafi gengið vel á meðan markaðurinn hafi verið þyngri á hinum Norðurlöndunum.

„Þetta er annað árið í röð sem við bjóðum upp á sólarlandaferðir frá Íslandi og í ár höfum við selt 60 prósent fleiri ferðir en á sama tíma í fyrra en við höfum líka aukið framboðið umtalsvert. Við gerum ráð fyrir að fljúga með um fjögur þúsund Íslendinga til Tyrklands í ár og ætlum að fjölga þeim enn frekar á næsta ári,“ segir Yamanlar.