Hagnaður Iceland Seafood International fyrir skatta á fyrri helmingi ársins 2016 jókst um 55% frá árinu áður. Tekjur á fyrri árshelmingi voru 119 milljónir evra og hagnaður fyrir skatta 1,7 milljónir evra, eða tæpar 224 milljónir króna. Um er að ræða 600 þúsunda evra aukningu frá því í fyrra.

Hagnaður eftir skatt var 1,2 milljónir evra, eða og hækkaði um eina milljón evra á milli ára. Þá nam nettó skuldastaða Iceland Seafood 38,6 milljónum evra og er um 24% lækkun að ræða á síðustu 12 mánuðum.

Í tilkynningu Iceland Seafood er haft eftir forstjóranum Helga Antoni Eiríkssyni að hagnaður fyrir skatt hafi verið 13 prósentum hærri en búist var við. Frábæra niðurstöðu megi reka til góðrar frammistöðu í öllum deildum, þar á meðal á Íslandi. Hagnaður hefur vaxið á Bretlandi á meðan stærstur hluti hagnaðarins kemur frá Spáni.

Iceland Seafood International var skráð á First North markaðinn þann 25. maí síðastliðinn í kjölfar sölu á 40% hlut í félaginu til fagfjárfesta.