Stórfyrirtæki á borð við General Electric, Facebook, Goldman Sachs, og Walt Disney, hafa fordæmt ákvörðun Donald J. Trump að draga til baka þátttöku Bandaríkjanna út úr Parísarsamningum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Fjallað er um málið í frétt BBC .

Gagnrýnendur hafa meðal annars sagt að stefna Trump, sem miðar af því að setja Bandaríkin í fyrsta sæti, skaði bandarísk fyrirtæki, rýri orðspor þeirra erlendis, og hafi neikvæð áhrif á nýsköpun. Dow Jones vísitalan hækkaði um 0,6 prósentustig í gær í kjölfar tilkynningar Trump.

Áður en Trump tók ákvörðunina hvöttu stórfyrirtækin forsetann að endurskoða afstöðu sína, en allt kom fyrir ekki, og í kjölfarið lýstu þau yfir óánægju sinni. Forstjóri General Electric Jeff Immelt, skrifaði á Twitter síðu sína að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru að raungerast og að nú væri það hlutverk iðnaðarins að leiða baráttuna gegn henni, en ekki stjórnvalda.

Stórhuginn Elon Musk hefur staðfest að hann mun segja sig úr tveimur ráðgjafahópum Hvíta hússins. Á Twitter síðu sinni segir hann loftslagsbreytingarnar raunverulegar og að ákvörðun forsetans hafi ekki verið góð fyrir Bandaríkin. Önnur stór fyrirtæki á borð við Morgan Stanley, PepsiCo, Walmart, Apple og Google, hafa lýst andstöðu sinni við ákvörðun Trump.