Stórir bankar eins og Goldman Sachs, Bank of America og Mastercard hafa á undanförnu ári í auknum mæli verið að sækja um einkaleyfi á alls kyns tækni tengd grunnhugmyndinni á bakvið rafgjaldmiðilinn BitCoin.

Blockchain tæknin, sem íslenskuð hefur verið sem bálkkeðja, byggir á því að kóðinn sjálfur inniheldur upplýsingar um eignarhald og hvernig það hefur skipt um hendur er talin geta valdið straumhvörfum í fjármálaheiminum og víðar með því að auka traust milli viðskiptaaðila.

Mastercard sótt um 30 einkaleyfi

Talsmenn Goldman Sachs og Bank of America svöruðu ekki fyrirspurnum Bloomberg fréttastofunnar sem fjallaði um málið, en Justin Pinkham hjá Mastercard segir fyrirtækið einfaldlega vera að verja uppfinningar sínar.

Mastercard hefur sótt um meira en 30 einkaleyfi í bálkkeðjutækni og er varðar rafræna gjaldmiðla.

Mikið í opnum kóða

Eitt vandamálið er að stór hluti af tækninni er í svokölluðum opnum kóða, eða open source,, það er að allir hafa aðgang að tækninni, en ýmis lagaleg deilumál hafa verið í gangi varðandi notkun tækni byggðum á opnum kóða í áraraðir í tækniheiminum.

Fyrirtæki víða um heim hafa sótt um og fengið einkaleyfi á 356 mismunandi gerðum bálkkeðja, eða rafrænnra gjaldmiðla í nóvember, sem er aukning frá 180 í janúar.

„Við erum að sjá gríðarlega aukningu í umsóknum,“ sagði Marc Kaufmann, sérfræðingur í hugverkum hjá Reed Smith og Questel. „Ég spái því að við munum sjá þúsundir einkaleyfa eftir fimm ár.“