Verð á sumarbústöðum lækkaði í kjölfar efnahagskreppunnar en Jón Rafn Valdimarsson, löggiltur fasteignasali á Fasteignasölunni Mikluborg, segir að samt sem áður hafi verið ágætis sala á þeim árum.

„Það var mesta furða," segir hann. „Á síðastu tveimur til þremur árum hefur salan síðan aukist töluvert. Mesta breytingin, sem við sjáum, er að það er orðinn stærri kaupendahópur að bústöðum sem eru 90 til 100 fermetrar. Þetta eru hús sem kosta 20 til 30 milljónir og jafnvel meira en það. Ef þau eru á vinsælum svæðum þá er markaðurinn núna þannig að þau seljast oft á innan við viku. Fyrir tveimur vikum fengum við einn svona stóran bústað í sölu í Öndverðarnesi og hann seldist á innan við sólarhring. Um 70 til 80% af þeim sumarhúsum, sem seldust núna í maí, voru dýrari en 20 milljónir.

Á sama tíma hefur kaupendum að þessum minni klassísku sumarhúsum, sem eru um 50 fermetrar og voru kannski byggð fyrir 30 árum, farið fækkandi."

Hvað ræður verði og eftirspurn?

Sumarbústaðir hafa ekki hækkað jafnmikið í verði og íbúðarhúsnæði. Á þessu eru ýmsar skýringar en sú augljósasta er að sumarbústaðir eru frístundahús en íbúðarhúsnæði er heimili fólks.

Jón Rafn segir að ekki sé hægt að að bera sumarbústaðamarkaðinn saman við íbúðamarkaðinn. Auk þeirrar augljósu ástæðu að sumarhús séu ekki heimili fólks séu aðrir þættir sem ráði bæði verði og eftirspurn eftir sumarhúsum en íbúðarhúsum.

„Það hvort það sé heitt vatn í bústaðnum og hvort hann sé á leigulandi eða eignalandi skiptir miklu máli. Ástæðan fyrir háu verði í Kiðjabergi er meðal annars vegna þess þar er heitt vatn og flestir bústaðirnir þar eru á eignalandi. Til samanburðar eru margir bústaðir í Öndverðarnesi, og náttúrlega annars staðar, á leigulandi og leigan getur verið 140 til 150 þúsund á ári.

Einnig skiptir máli að bústaður sé á steyptum sökkli eða plötu frekar en á tréstólpum eða steyptum súlum. Bankar eru miklu líklegri til að veita lán ef bústaðurinn er á steyptum sökkli eða plötu. Þeir lána almennt ekki ef bústaðurinn er tréstólpum og eru sömuleiðis tregir til lána ef bústaður er á steyptum súlum. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að eftirspurn eftir stórum bústöðum hefur aukist mikið því þessir stóru bústaðir eru tiltölulega nýir og byggðir á sökkli eða plötu."

Útlendingar kaupa litla bústaði

Jón Rafn segir að ekki sé verið að byggja mikið af sumarbústöðum í dag.

„Sala á sumarhúsalóðum hefur ekki verið neitt sérstaklega mikil. Fólk virðist ekki vera komið á þann stað að það nenni að standa í byggingaframkvæmdum. Fyrirspurnum um lóðir hefur þó fjölgað aðeins undanfarið en salan ekki mikil."

Að sögn Jóns Rafns hefur nokkuð verið um það að útlendingar kaup sér sumarbústað.

„Það er kannski ekki mjög algengt en ég hef orðið var við að Þjóðverjar og Frakkar séu að kaupa. Þá eru þeir að sækjast eftir litlum bústöðum — finnst sjarmerandi að eiga 50 fermetra bústað uppi í sveit á Íslandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .