Ný greining Íslenska sjávarklasans á stöðu tæknifyrirtækja, sem tengjast sjávarútvegi, sýnir að staða margra þeirra hefur aldrei verið jafn sterk og nú. Tíu stærstu fyrirtækin juku veltu sína umtalsvert á milli ára og nam um 42 milljörðum króna árið 2018.

Í greiningunni segir að veltuaukningin sé bæði tilkomin vegna sölu búnaðar sem og samruna við önnur fyrirtæki. Velta annarra fyrirtækja, sem eru samkvæmt athugun Sjávarklasans um 65 talsins, var um 40 milljarðar og óx um 7% á árinu 2018.

„Fleiri tæknifyrirtæki eru að stækka umtalsvert og ná öflugri fótfestu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir harða samkeppni hafa mörg minni fyrirtækin haldið vel sínum hlut og í sumum tilfellum vel það. Í fáum útflutningsgreinum, eins og þeirri sem hér er til skoðunar, hafa fyrirtækin nýtt jafn vel þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni. Þá eru að koma fram ný tæknifyrirtæki, m.a. í rekjanleika, DNA greiningum og umhverfisstjórnun sem enn bæta þá fjölbreyttu flóru tæknifyrirtækja sem starfrækt eru á þessu sviði hérlendis,“ segir þar.

Stórstígar breytingar

Sjávarklasinn hefur gert árlegar samantektir á þróun tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Í athugunum klasans er aðeins horft til fyrirtækja sem hanna, framleiða og flytja út tæknibúnað, annan búnað eða þjónustu til erlendra útgerða eða fiskeldisfyrirtækja. Samkvæmt athugunum klasans er um 65 fyrirtæki að ræða.

Vikið er að því að á þeim sjö árum, sem liðin eru frá því Sjávarklasinn hóf þessa vinnu hefur orðið gríðarleg breyting á þessari atvinnugrein; mörg fyrirtækjanna hafa stækkað, tækninni hefur vægast sagt fleygt fram og samkeppni aukist. Líklega hefur afdrifaríkasta breytingin í þessari grein verið hvernig upplýsingatækni varð samtvinnuð allri vinnslu og veiðum.

Þar með varð ljóst að öll fyrirtæki sem höfðu áður byggst upp á þekkingu í járnsmíði og tiltölulega einföldum vinnslulínum þurftu að einblína mun meira á hugbúnað. Með aukinni sjálfvirknivæðingu varð einnig aukin krafa um nýtingu gervigreindar og að lausnir væru heildstæðar. Í kjölfarið stækkuðu þau fyrirtæki ört sem gátu boðið heildstæðar lausnir og meiri sjálfvirknivæðingu en hin stóðu nokkurn veginn í stað.

„Árið 2018 má því segja að sé fyrsta árið í sögunni þar sem sala búnaðar og tækni frá íslenskum fyrirtækjum, sem er að stórum hluta sala til erlendra aðila, er meiri en sem nemur sölu á þorskflökum frá Íslandi. Hafa ber í huga að stór hluti þessarar starfsemi, sérstaklega hjá Marel og Hampiðjunni, fer fram í öðrum löndum.“

Þau stóru stækka

Stóru eða meðalstóru tæknifyrirtækjunum hefur fjölgað og þau hafa einnig haft mun meira svigrúm en þau minni til að markaðssetja þjónustu sína og vörur erlendis. Á síðastliðnum árum hefur það tekist afar vel, segir jafnframt í greiningunni.