Stofnandi Sveiflustöðvarinnar – Reykjavík Swing Station, Sigurður Helgi Oddsson, ákvað að stofna skólann einungis tveimur árum eftir að hann byrjaði sjálfur að læra dansinn Lindy hop. Auk þess hefur hann haldið nokkur stórsveitarböll í anda gullaldartíma svingtónlistarinnar á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum, þar með talið á danshátíðinni Lindy on Ice.

Verður hátíðin haldin nú í annað sinn næstkomandi 14. til 17. febrúar, á sama tíma og fyrstu dansnámskeiðum ársins lýkur. Danshátíðin dregur fjölda erlendra dansara á Flúðir þar sem hún verður aftur haldin. Þess má geta að einnig verður boðið upp á sveifludansiball í kvöld, laugardaginn 19. janúar, en um er að ræða eftirpartý Django daga sem haldnir hafa verið í húsnæðinu um helgina.

„Ég hef alltaf verið dansfífl innra með mér, en einhvern veginn fann ég aldrei tækifæri eða elju til að leita mér að kennslu. Ég er tónlistarmaður og píanóleikari á víðu sviði frá klassík til djass en sving- og sveiflutónlist hefur alltaf verið mér sérstaklega kær. Ég hlustaði mikið á menn eins Count Basie og Duke Ellington, þetta eru leiðtogar stærstu stórsveitanna á gullöld sveiflunnar, og Fats Waller sem var þekktur píanóleikari á þessum tíma,“ segir Sigurður sem þá hafði ekki hugmynd um að dansstílar þessa tíma hefðu verið endurvaktir og lifðu nú góðu lífi víða um heim.

„Ég sá svo auglýst námskeið í Lindy hop hjá Háskóladansinum þar sem kom fram að þetta væri dans við sveiflutónlist, skellti mér og varð alveg heltekinn.“

Markmið Sigurðar með skólanum er að taka sveifludansa föstum tökum samhliða vaxandi áhuga Íslendinga á dansi. Nú býður Sveiflustöðin upp á námskeið á mánudögum í Iðnó í bæði Lindy hop og Charleston sem bætt var við á þessari önn, en bæði námskeiðin fylltust strax. Auk þess heldur hann danskvöld sem eru öllum opin í Iðnó á hverjum mánudegi.

„Þegar ég var svo búinn að dansa í fjóra eða fimm mánuði, þá fór ég á mína fyrstu erlendu danshátíð, sem er í Herräng í Svíþjóð, sem er sú stærsta í heiminum. Það er svona eins og Mekka lindy hopsins, þar er dansað kvöld eftir kvöld, með lifandi tónlist frá bestu böndum sem völ er á og þangað koma þúsundir manns á hverju sumri,“ segir Sigurður.

„Þarna varð hugmyndin til hjá vinkonu minni úr dansinum, sem er búin að dansa mikið lengur en ég, um að stofna hátíð, og gekk ég inn í það. Úr varð Lindy on Ice, sem er hátíð sem við héldum í febrúar síðastliðnum.“

Er þetta önnur Lindy hop hátíðin sem er haldin hér á landi, en hin er Arctic Lindy sem dregið hefur hundruð erlendra gesta til Vestfjarða á hverju sumri í áratug.

„Með því að blanda saman straumum héðan og þaðan í dansinum við íslenskar hljómsveitir af hæstu gæðum erum við að læra hvert af öðru. Á hátíðinni á Flúðum vorum við í heildina í kringum fimmtíu manns í fyrra ef við tökum öll böllin saman, meirihlutinn ferðamenn, og nú er hugmyndin að ná þessu upp í hundrað,“ segir Sigurður Helgi sem vill byggja danssamfélagið upp til framtíðar.

„Þótt þetta sé öðrum þræði hugsjónastarf er ástæðan fyrir því að ég ákvað að setja þetta upp sem einkarekstur, en ekki sjálfboðastarf eins og Háskóladansinn, er að með því að geta borgað kennurum og tónlistarfólki laun, auk þess að greiða fyrir húsnæði, er meiri slagkraftur til að gera hluti með meiri metnaði og gæðum. Síðan væri einstaklega skemmtilegt að geta sett upp stórsveitarböll í anda fjórða áratugarins eins og var til dæmis í Savoy í Harlem, því þó að fólk í dag sitji kyrrt þegar það hlustar á djass og aðra sveiflutónlist, var þetta upphaflega tónlist sem fólk iðaði við og dansaði undir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .