Viðskiptaráð Íslands fagnar á heimasíðu sinni breytingu umhverfis- og auðlindaráðherra á byggingarreglugerð sem undirrituð var í gær. Ráðið segir að með breytingunni hafi stórt skref verið stigið í átt til lækkunar fasteignaverðs, sér í lagi þegar komi að smærri íbúðum. Stjórnvöld hafi með þessu greitt fyrir því að fleiri einstaklingar geti eignast húsnæði á komandi árum.

Í nýlegu erindi hagfræðings Viðskiptaráðs kom fram að stærsta tækifæri stjórnvalda til að lækka íbúðaverð fælist í að stuðla að auknu framboði nýrra íbúða.

Viðskiptaráð bendir á að veigamikill þáttur í því sé að einfalda byggingareglugerð og draga úr öðrum regluverkshindrunum sem auka kostnað byggingaraðila. Þetta eigi sérstaklega við þegar komi að smærri íbúðum, en kostnaður við byggingu þeirra hafi verið aukinn umtalsvert með íþyngjandi reglum á undanförnum árum.