Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og samninganefndarmaður sjómanna segir það þyngra en tárum taki að Sjávarútvegsráðherra sé ekki tilbúinn að liðka fyrir samningagerð með því að undanþegja fæðispeninga sjómanna skatti, líkt og á við um almenna dagpeninga.

Segir hann að um mikið réttlætismál sé að ræða fyrir íslenska sjómenn, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Sjávarútvegsráðherra viljað að fram fari heildstæð greining á málinu fyrst.

Eina sem út af stóð

„Það eina sem útaf stóð var að fá vilyrði frá sjávarútvegsráðherra fyrir því að stjórnvöld myndu liðka fyrir því að dagpeningar sjómanna yrðu meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og hjá öðru launafólki sem þarf að greiða fyrir fæðiskostnað vegna starfs síns víðsfjarri heimili sínu," segir Vilhjálmur á Facebook síðu sinni og vísar í að drög að kjarasamningi hafi legið fyrir í nótt milli deiluaðila.

„Það er skemmst frá því að segja að fulltrúar sjómanna áttu fund með sjávarútvegsráðherra þar sem þessu var hafnað!"

Biður um að taka eftir tímasetningu greiningarinnar

Hins vegar hafi ráðherra lagt til að fram færi heildstæð skoðun á málinu, og bað hann lesendur sína um að taka eftir sérstaklega að þessi skoðun eigi að liggja fyrir eigi síðar en í lok apríl.

„Ég bara spyr, afhverju hafa stjórnvöld ekki verið búin að þessu í ljósi þess að sjómenn hafa verið að kalla eftir að verða meðhöndlaðir eins og annað launafólk þegar kemur að dagpeningum vegna fæðiskostnaðar?," spyr Vilhjálmur á facebook síðu sinni í kjölfarið.

Biðlar til Alþingismanna að hlutast til með sjómönnum

„Á þessari forsendu lá orðið fyrir uppúr miðnætti að sjómenn gátu ekki undir nokkrum kringumstæðum klárað nýjan kjarasamning því það er ljóst að þetta atriði skiptir hagsmuni sjómanna miklu máli. Þetta er réttlætismál!“

Biðlar hann og kallar það í raun neyðarkall til Alþingismanna um að þeir taki afstöðu með íslenskum sjómönnum í málinu, en fyrir utan þetta mál segir hann að eftir erfiðan fund deiluaðila hafi í gærnótt drög að nýjum kjarasamningi legið klár fyrir.