Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í tæpa tvo mánuði og hafa deiluaðilar náð saman um þrjú af fimm helstu kröfum sjómanna. Hins vegar segja samningamenn sjómanna allt stál í stál varðandi hin tvö málin, sem eru olíuviðmið og sjómannaafsláttinn.

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands sagði í samtali við RÚV að menn væru að fara yfir stöðuna, en ákveðin atriði væru komin í hús.

Það er þau sem lúta að fríu fæði um borð, með ákveðnum skilyrðum, frían vinnufatnað og bókun varðandi fjarskipti.

Hins vegar sé enn allt í stál varðandi þátttöku sjómanna í olíukostnaði og sjómannaafslátt. Nú er olíuviðmiðið 70%, sem þýðir að 30% af aflaverðmæti fari framhjá skiptum og fari því í kostnað við olíu og fleira.

Sjómenn vilja nú að það viðmið hækki í 73%, þannig að 27% fari framhjá skiptum.