Strandríkin Ísland, Færeyjar, Noregur, Rússland auk ESB hafa komið sér saman um 588.562 tonna heildarkvóta á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2019. Á yfirstandandi ári er áætlaður afli 435.000 tonn, þ.e.a.s. með afla umfram ráðgjöf, 435.000 tonn. Nemur aukningin því 154.000 tonnum sem er um 35%. Ráðgjöf yfirstandandi árs er hins vegar 384.000 tonn og er því um að ræða nær 53% aukningu í ráðlögðum afla. Strandríkin hafa hins vegar ekki komið sér saman um skiptingu sín á milli í veiðum á norsk-íslensku síldinni.

2016 árgangurinn sá stærsti frá 2004

Ákvörðunin er samhljóða ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, sem byggir á nýrri aflareglu sem strandríkin samþykktu fyrr í þessum mánuði. Norska hafrannsóknastofnunin hefur auk þess  gefið það út að 2016 árgangurinn mælist sá sterkasti allt frá árinu 2004 og gefi vísbendingar um stækkandi stofn.

Harald T. Nesvik, sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur lýst yfir vonbrigðum með að Noregur, Evrópusambandið, Færeyjar, Ísland og Rússland hafi ekki komið sér saman um skiptingu á kvótanum. Norðmenn hafa lagt til að fram fari sameiginlegar vísindarannsóknir ríkjanna á norsk-íslenska síldarstofninum innan lögsögu ríkjanna og á alþjóðlegu hafsvæði. Rússar hafa stutt tillöguna en önnur ríki ekki. Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka útgerðarmanna í Noregi, segir ástæðuna þá að þessar þjóðir óttist að niðurstöður slíkra rannsókna gætu leitt í ljós að þær hafi ekki tilkall til þess kvóta sem þær hafi í dag.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu var afli Íslendinga úr norsk-íslenska síldarstofninum m 60.000 tonn árið 2014, þar af um 46.000 tonn við Ísland, 42.600 tonn árið 2015, þar af 39.000 tonn við Ísland og 50.000 tonn árið 2016, þar af 49.500 tonn við Ísland. Í fyrra nær tvöfaldaðist aflinn og fór í 90.400 tonn, Þar af veiddust 56.300 tonn við Ísland, 29.000 tonn við Færeyjar og 5.000 tonn á alþjóðlegu hafsvæði.

Mæla ekki með samningi við Íslendinga

„Það er áhyggjuefni að aðrar þjóðir vilji ekki taka þátt í slíkri vinnu sem gæti stuðlað að lausn málsins og þar með tryggt sjálfbæra nýtingu stofnsins,“ segir sjávarútvegsráðherrann í samtali við norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet.

Þar er einnig bent á að á næstunni verði efnt til samningaviðræðna um makrílveiðar strandríkjanna. Þar verði hugsanlega endurnýjaður þríhliða samningur Evrópusambandsins, Færeyja og Norðmanna. Um þetta hefur Maråk þetta að segja: „Kröfur Íslendinga um kvótahlutdeild eru svo háar með tilliti til fiskifræðilegra staðreynda að við getum ekki mælt með því að gerður verði samningur sem Íslendingar eiga aðild að. Það er líka þess virði að benda á að mun minni makríll er nú innan íslensku efnahagslögsögunnar en áður. Líklegt er að sú þróun haldi áfram og með hraðari hætti.“

Ísland, Færeyjar, Noregur og Evrópusambandið hafa einnig komið sér saman um heildarkvóta fyrir kolmunna fyrir næsta ár upp á 1.144.000 tonn sem er lítilsháttar minnkun frá kvóta yfirstandandi árs. Þjóðirnar hafa ekki heldur komið sér saman um innbyrðis skiptingu á honum.