Sérskattar og vaxandi gjöld á fjármálafyrirtæki hafa dregið úr samkeppnisfærni íslenska fjármálageirans. Íslensk fjármálafyrirtæki hafi til að mynda tapað hlutdeild á útlánamarkaði. Þetta kemur fram í viðtali við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, í Morgunblaðinu í dag.

Þrátt fyrir að árið 2014 hafi að mestu verið gott fyrir fjármálageirann þá telur Guðjón nauðsynlegt að bæta ákveðna grunnþætti, meðal annars til að bæta samkeppnisstöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna. Guðjón bendir á að hlutur erlendra aðila í útlánum til íslenskra fyrirtækja hafi vaxið úr 30% árið 2013 í tæp 40% á síðasta ári.

Guðjón vill sjá sanngjarnari skattlagningu á fjármálafyrirtæki og þá væri einnig æskilegt að slaka á ýmsum íslenskum sérreglum, til dæmis um eiginfjárhlutfall, til þess að auka skilvirkni í fjármálageiranum. Fá dæmi séu í heiminum um jafn strangar kröfur um eigið fé fjármálafyrirtækja eins og á Íslandi.