*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 4. september 2016 12:02

Stuðningi beint til þeirra tekjuhærri

BSRB gagnrýnir frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Með því að beina stuðningi stjórnvalda við húsnæðiskaupendur frá vaxtabótakerfinu yfir í að heimila fólki að nýta séreignasparnað til að kaupa fyrstu íbúð er verið að beina stuðningnum frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri, að því er fram kemur í umsögn BSRB um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Bandalagið mótmælir þessari þróun harðlega.

Í tilkynningu frá bandalaginu kemur fram að það úrræði sem stjórnvöld ætli að bjóða upp á byggi á því að skattfrjáls sparnaður einstaklingana sé nýttur til að eignast fasteign. Í umsögn BSRB um frumvarpið er bent á að stjórnvöld hafi á undanförnum árum dregið verulega úr stuðningi við fasteignaeigendur. Sá stuðningur hafi verið á formi vaxtabóta sem hafi árið 2011 verið tæplega 19 milljarðar króna en hafi verið áætlaður um 6,2 milljarðar króna á fjárlögum vegna ársins 2016. Vaxtabætur hafi því verið lækkaðar um 70% á síðustu fimm árum.

BSRB gagnrýnir þetta harðlega í umsögn sinni. Bent er á að vaxtabætur séu sniðnar að þörfum almennings þar sem þeir sem séu með lægri tekjur fái mest en bæturnar skerðist með hærri tekjum og eignum. „Skattaafsláttur á séreignasparnaði snýr hins vegar að stuðningnum við þá tekjuhærri sem fá meiri stuðning en tekjulægri. BSRB mótmælir harðlega þeirri þróun að húsnæðisstuðningur beinist frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri,“ segir í umsögn BSRB.

Úrræðið útilokar hópa sem þurfa stuðning

Bandalagið telur vissulega að sá stuðningur sem stjórnvöld áformi með frumvarpinu muni koma einstaklingum betur áleiðis í söfnun eða aukinni eignamyndun fyrsta húsnæðis, en bendir á að þröng skilyrði séu fyrir því að hægt sé að nota úrræðið. Það útiloki hópa sem þurfi á sambærilegum stuðningi að halda og kaupendur fyrstu fasteignar.

Þá bendir BSRB á að úrræðið leysi ekki þann bráðavanda sem þeir sem séu á húsnæðismarkaði nú glími bið. Sá vandi sé meðal annars skortur á hagkvæmu leiguhúsnæði og gallað húsnæðislánakerfi með of háum vöxtum.

Þá er það gagnrýnt í umsögn bandalagsins að þær fjárhæðir sem einstaklingar eða sambúðaraðilar geti safnað með úrræðinu séu of lágar til að geta staðið undir 20% útborgun af nokkurri íbúð miðað við núverandi fasteignaverð. Því síður muni þær standa undir útborgun eftir fimm ár í ljósi þess hver þróunin hafi verið á fasteignaverði og hvernig líklegt sé að það þróist.

Stikkorð: BSRB
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim