Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um fjögur prósentustig milli mánaða, en um tveir af hverjum fimm sem tóku afstöðu segjast styðja hana nú, samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Capacent Gallup.

Litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða. Helstu breytingar eru þær að fylgi Bjartrar framtíðar minnkar um tvö prósentustig en rösklega 15% segjast myndu kjósa flokkinn nú. Fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar eykst um 0,7 prósentustig milli mánaða, en um fjórðungur segist myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 17% Samfylkinguna og liðlega 14% Framsóknarflokkinn.

Fylgi annarra flokka breytist lítið eða á bilinu 0,2-0,4 prósentustig milli mánaða. Tæplega 12% segjast myndu kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, 9% Pírata og rúmlega 7% segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Nær 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og rúmlega 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.