„Við erum á pari við Kína, Indland og Indónesíu varðandi það hversu auðvelt er að fjárfesta hér á landi. Það eru fjögur neðstu löndin af öllum OECD-löndunum,“ segir Björg Hjördís Ragnarsdóttir, í samtali við Fréttablaðið. Hún er meðhöfundur B.Sc-ritgerðar við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sem fjallar um það hvort Ísland sé góður fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta. Í ritgerðinni kemur fram að smæð markaðar, óöguð hagstjórn, fjarlægð frá öðrum mörkuðum, skattalöggjöf og pólitísk áhætta valda því að Ísland er meðal þeirra landa heims þar sem hömlur á erlendri fjárfestingu eru hvað mestar.

Hún segir í samtali við Fréttablaðið:

„Sundurlyndi íslensku stjórnmálaflokkanna varðandi erlenda fjárfestingu veldur pólitískri óvissu, sem leiðir til þess að erlendir fjárfestar treysta sér tæplega til að koma með fjármagn til landsins.“ Hún bendir á að fjárfestar séu gjarnan háðir duttlungum einstakra ráðherra hvað varðar möguleika til fjárfestinga, sem fæli þá frá auk þess sem sömuleiðis hafi reynst erfitt að treysta orðum ráðherra.