Sturla Böðvarsson, fyrrum samgönguráðherra og forseti Alþingis, tekur aftur við starfi bæjarstjóra Stykkishólms. Hann sinnti starfinu áður frá árinu 1974 til 1991 og því 40 ár síðan hann settist í fyrsta sinn í stól bæjarstjóra á Stykkishólmi.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Sturla sér lítast mjög vel á það að sitjast aftur í bæjarstjórnarstól í Stykkishólmi. Hann sagði vini sína og samstarfsmenn til margra ára í Hólminum hafa skorað á sig til að gefa færi á sér og að starfið sé mjög spennandi verkefni.

Verkefni bæjarstjóra svipað og fyrir 40 árum

Aðspurður um breytingar á starfinu síðan hann lét af störfum fyrir rúmum tuttugu árum sagði Sturla að miklar breytingar hafi orðið á starfsemi sveitafélaganna og að það hafi orðið verkaskipting með öðrum hætti en var áður. Hins vegar segir hann verkefni bæjarstjórans í grundvallaratriðum vera hið sama og áður, að vinna úr ákvörðunum bæjarstjórnar að hverju sinni.

Sturla sagði eitt aðal stefnumál H-listans þar sem hann skipaði í 4. sæti vera að ganga til samstarfs við atvinnulífið og efla það í Stykkishólmi. Sturla sagði fækkun í bænum á síðustu árum vera óásættanlega í ljósi þess að að Stykkishólmur sé á stóru markaðssvæði með góðum samgöngum og að það séu miklir möguleikar í Breiðarfirðinum. Ferðaþjónustan á svæðinu hefur einnig verið að aukast. Hann sagðist trúa því að hægt væri að snúa vörn í sókn í þessum málum og fjölga íbúum. Hann sagði flokkinn telja eflingu atvinnulífsins einu leiðina til að fjölga íbúum aftur.

Vill efla sjúkrahúsið

Annað mál sem Sturla hyggst snúa sér að snýr að sjúkrahúsinu í Stykkishólmi. St. Francisku reglan rak spítalann frá árinu 1935 þangað til ríkið keypti hann árið 2006. Sturla sagði að mikið hafi verið dregið saman í starfsemi sjúkrahússins síðan þá einnig eftir sameiningu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og að hlutur Stykkishólms hafi legið eftir. Hann sagði það vera eitt af mikilvægu verkefnunum sem bæjarstjórnin muni snúa sér að, í samstarfi við Heilbrigðisráðuneytið, vera styrkingu stöðu sjúkrahússins sem hefur sérstöðu vegna þjónustu við bakveika. H-listinn hyggst efla starfsemina fyrir bakveika í Hólminum. Stærsti parturinn af þjónustu bakdeildarinnar sé að sinna sjúklingum annars staðar af á landinu og að það séu langir biðlistar.

Aðspurður sagði Sturla helsta mun milli þess að vera í ríkisstjórn og á Alþingi eða í bæjarstjórn vera sambandið við íbúana.

„Það er meiri fjarlægð að sitja í ráðuneyti eða í sæti á Alþingi frá daglegu lífi fólksins,“ sagði hann. „Það er mjög skemmtilegt að vera bæjarstjóri og taka þátt í breytingu og uppbyggingu og samstarfi við fólkið, það hafi honum alltaf líkað vel við að gera og lítist vel á að vinna við það aftur.“

Sturla sagði einnig mikilvægt að nýta reynslu fólks úr atvinnulífinu og úr stjórnmálum á vettvangi sveitastjórnarmála að það sé ekki hægt að ætlast til þess að bara unga fólkið geri það, enda mikill tími sem fer frá fjölskyldunni í sveitastjórnarmálin.