Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri Seðlabanka Íslands, braut trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína um aðgerðir Seðlabanka Íslands í aðdraganda neyðarlaganna. Þetta kemur fram á heimasíðu Ríkisútvarpsins.

Eiginkona Sturlu var á þeim tíma lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja. Sturla á sjálfur að hafa varað við því að innherjar hefðu getað nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett.

Í vitnaskýrslunni yfir Sturlu, sem þá var framkvæmdastjóri hjá seðlabankanum, er að finna ummæli um tímasetningu neyðarlaganna og þess að innherjar hefðu geta nýtt sér þá stöðu.

Á vef Ríkisútvarpsins er vitnað í skýrsluna:

„Sturla kvað að Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr (Guð blessi Ísland ávarpið). Hann kvaðst hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr. Reiknar með að í bönkunum sé að finna hreyfingar sem áttu uppruna sinn í því að menn töldu góðar líkur á því að þeir færu á hausinn. Það hefði átt að samþykkja neyðarlögin og „Blessa Ísland" á sunnudagskvöldið."

Gátu hagnast á upplýsingunum

Neyðarlögin voru samþykkt að kvöldi mánudaginn 6. október 2008. Helgina þar áður höfðu linnulaus fundarhöld verið í ráðherrabústanðum. Á sunnudagskvöldinu biðu fjölmiðlar og eigendur bankana eftir yfirlýsingum frá stjórnvöldum.

Forsætisráðherra tilkynnti blaðamönnum aftur á móti  á sunnudagskvöldinu að ekki væri talin þörf á sérstökum aðgerðum vegna ástandsins. Hver sem ástæðan var átti tæpur sólarhringur eftir að líða þar til gripið var til aðgerða. Þeir sem vissu hvað væri á döfinni gátu nýtt sér upplýsingarnar sér til hagsbóta.

Fjallað verður um málið í Kastljósi kvöldsins.