Nú stendur yfir samkeppni um stuttmyndir á vegum alþjóðasamtaka kvenna í sjávarútvegi, Women in Seafood. Frestur til að skila inn myndum rennur út 2. ágúst og tilkynnt verður um sigurvegara í september.

Allir sem tengjast sjávarútvegi geta sent inn myndir, hvort heldur karlar eða konur, stofnanir eða samtök, en myndin má ekki vera lengri en fjórar mínútur.

Myndirnar eiga að snúast um reynslu kvenna af sjávarútvegi en markmið keppninnar er að vekja athygli á framlagi kvenna til sjávarútvegs. Matís á Íslandi styður samkeppnina með tæknilegri aðstoð.

„Einn af hverjum tveimur starfsmönnum í sjávarútvegi er kona,“ segir á vef stuttmyndasamkeppninnar. „Þær gegna lykilhlutverki í greininni en eru ennþá ósýnilegar.“

Þetta er í þriðja sinn sem samkeppni af þessu tagi er haldin. Árin 2017 og 2018 bárust fjölmargar stuttmyndir frá konum í sjávarútvegi víðs vegar um heiminn. Þær má allar sjá á vef samkeppninnar , þar á meðal stuttmynd frá HB Granda árið 2018.

[email protected]