Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) lýsa fullum stuðningi við þá kröfu sjómanna að allur fiskur fari á markað og/eða að markaðsverð verði framvegis skiptaverð. Kemur þetta fram í ályktun, sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í gær.

Í ályktuninni er skorað á sjómenn að hvika í engu frá kröfum sínum um eitt, markaðstengt fiskverð í landinu.

Eins vilja samtökin gefa strandveiðar frjálsar og að öllum afla úr þeim veiðum sé landað á fiskmarkað. Eins skorar fundurinn á nýja ríkisstjórn að tryggja þjóðarsátt um sjávarútveginn. Eðlilegt samkeppnisumhverfi fyrir alla og sanngjörn kjör sjómanna stuðli að slíkri sátt.