Stýrivextir verða óbreyttir í Bretlandi enn um sinn, í 0,75%, eftir ákvörðun stýrivaxtanefndar Englandsbanka í morgun. Bankinn, sem starfar sem seðlabanki Bretlands, hefur einungis tvisvar hækkað stýrivexti frá fjármálakrísunni 2008, í annað sinn var það í ágúst síðastliðnum.

Aukin þensla kallar á hækkun stýrivaxta ef Brexit skaðar ekki verslun, en þá gætu vextir lækkað á ný að mati bankans. Sagði bankinn að einkaneysla væri meiri en hann hefði búist við, en fyrirtæki héldu að sér höndum í fjárfestingum þangað til skýrari mynd væri komin á viðskiptasambandið við stærsta markaðssvæði breskra fyrirtækja í þeim ESB ríkjum sem eftir verða.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um gengur Bretland úr Evrópusambandinu, svokallað Brexit, formlega 29. mars næstkomandi eða eftir minna en 5 mánuði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis 23. júní 2016.

Bankinn sagði að harðnandi deilur um hvernig samkomulag væri ásættanlegt að gera við ESB um viðskiptasambandið eftir útgönguna væri líklegt til að draga úr fjárfestingum til skamms tíma.

Jafnframt sagði bankinn að ef miklar hömlur yrðu á viðskiptunum eftir útgönguna gæti verðbólguþrýstingur aukist vegna veikara punds, hindrana í virðiskeðjum fyrirtækja og mögulegra tollahindrana.

Viðbrögð bankans við Brexit gætu verið í hvora áttina sem er

Gaf bankinn þar með í skyn að hann þyrfti í framtíðinni að hækka vexti, þó einnig sé bent á að lækka þyrfti lánskostnað ef óstöðugleiki kæmi í efnahagslífið að því er Reuters greinir frá.

„Peningastefnuviðbrögð við Brexit, sama hvaða mynd verður á þeim, verða ekki sjálfvirk, og gætu verið í hvora áttina sem er,“ segir í yfirlýsingu Englandsbanka, sem samræmist fyrri orðum bankastjórans, Mark Carney.

Bankinn gerir ráð fyrir að hagvöxturinn haldi áfram í 1,75% ef útgangan gangi hins vegar vel.
Sagði bankinn að hagkerfið væri að vinna niður 2,4% verðbólguna sem er nú og það tæki þrjú ár að ná henni niður í 2% verðbólgumarkmiðin.

Býst bankinn að þensla byrji að myndast í hagkerfinu seint á næsta ári, sem er fyrr heldur en bankinn spáði í ágúst. Býst bankinn við að hagvöxtur nái 3,25% í lok næsta árs og 3,5% seint árið 2020.