*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Erlent 20. júlí 2017 12:27

Stýrivextir óbreyttir á evrusvæðinu

Stýrivextir á evrusvæðinu verða áfram 0%.

Ritstjórn

Peningastefnunefnd Evrópska seðlabankans tilkynnti nú fyrir skömmu að stýrivextir yrðu áfram 0% á evrusvæðinu. Mario Draghi, forseti Seðlabanka Evrópu mun seinna í dag halda blaðamannafund þar sem hann fer yfir rökstuðning ákvörðunarinnar.

Samkvæmt frétt BBC bíða markaðsaðilar eftir því að fá að vita hvort Seðlabankinn muni gera einhverjar breytingar á örvunaraðgerðum bankans. Bankinn kaupir nú skuldabréf fyrir um 60 milljarða evra í hverjum mánuði sem er hluti af magnbundinni íhlutun bankans.

Draghi gaf það út í síðasta mánuði að Seðlabankinn myndi halda áfram að kaupa skuldabréf og bætti því við að magnbundin íhlutun muni verða áfram á markaðnum til langs tíma. Þrátt fyrir það hefur verið orðrímur um að peningastefnunefndin sé með það til skoðunar að vinda ofan af örvunaraðgerðunum.

Verðbólga á evrusvæðinu var 1,3% í júní sem er 0,7 prósentustigum undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans um 2% verðbólgu á ársgrundvelli.