Undanfarin tuttugu ár hefur mikilvægi MSC-vottunar ábyrgra og sjálfbærra fiskveiða aukist nokkuð jafnt og þétt. Færri vita að í fiskeldinu er sambærileg vottun tekin að ná sér á strik. Það er svonefnd ASC-vottun, sem er hliðstæð MSC-vottun fiskveiða.

Eina íslenska fiskeldisfyrirtækið sem er með ASC-vottun er Arctic Fish, en Arnarlax vinnur einnig hörðum höndum að því að fá ASC-vottun og reiknar með að hún verði í höfn strax á næstu mánuðum.

Sigurður Pétursson hjá Arctic Fish segir það hafa verið langt og býsna strangt ferli að fá ASC-vottunina.

„Við förum í svokallaða forskoðun 2016 og þar kemur fram hvað þarf að bæta hjá okkur. Sérstaklega eru það nokkur atriði sem snúa að rekjanleika.“

Fyrir var Arctic Fish með lífræna vottun í gegnum vottunarstofuna Tún.

„Í raun er þetta byggt á sama prinsippi og MSC,“ segir Sigurður. „Nema þetta er fyrir eldisafurðir. Almennt er talað um þennan staðal sem einn þann kröfuharðasta varðandi lífræna ræktun.“

Meðal annars voru gerðar óskir um ákveðnar umhverfisrannsóknir sem aldrei hafa verið framkvæmdar hér við land.

„Þetta sneri að þungmálum og slíku sem í raun hefur enga þýðingu hér. Við þurftum að útvega staðfestingar á því, en annars staðar er það hið opinbera sem sér um að gera slíkar rannsóknir.“

Hann segir ASC-úttektina hafa verið gerða samkvæmt laxastaðli ASC, þótt hún hafi verið gerð fyrir regnbogasilung því Arctic Fish einbeitti sér til að byrja með að regnbogasilungnum. Vottunin gildir fyrir eldissvæðin í Dýrafirði og Önundarfirði.

„Hún gildir einnig fyrir lax,“ segir Sigurður. „Við þurfum svo þegar við byrjum á öðrum svæðum, svo sem Patreksfirði, tálknafirði og Arnarfirði, að fá úttekt líka á þeim eldissvæðum.“

Nýr framkvæmdastjóri
Sigurður hefur verið framkvæmdastjóri Arctic Fish en lét af þeirri stöðu nú um áramótin og ætlar í staðinn að einbeita sér að leyfismálum. Norðmaðurinn Stein Ove Tveiten tekur við framkvæmdastjórastöðunni og er fluttur til landsins ásamt fjölskyldu sinni.

„Við erum mjög heppin að fá hann,“ segir Sigurður. „Hann hefur verið að stýra stóru eldisfyrirtæki i Noregi í átta ár og kemur því inn með mikla reynslu.“

Arctic Fish stefnir að því að efla starfsemina verulega með laxeldi.

Sigurður segist ekki hafa neina trú á því að á Íslandi verði nokkurn tímann stundað fiskeldi af sömu stærðargráðu og í Noregi. Hins vegar sé óneitanlega mikil stærðarhagkvæmni í eldinu, sem óhjákvæmilegt sé að Íslendingar nýti sér. Þess vegna sé nú lögð mikil áhersla á að afla leyfa til frekara eldis.

„Í þessum iðnaði skiptir rosalega miklu máli að vera með góðan grunn. Ísland býr samt að því að vera með góða ímynd og það hjálpar okkur mikið.“

Arnarlax nálgast óðum
Arnarlax er um þessar mundir að vinna að því að fá ASC-vottun á fiskeldi sitt. Kristján Matthíasson framkvæmdastjóri segir þá vinnu langt komna.

Kristján segir mikilvægt að greina á milli ólíkra tegunda af vottunum. Vottun búnaðar sé engan veginn það sama og markaðsvottun, og umhverfisvottun er síðan enn annað.

„Oft er þessu öllu ruglað saman hér á Íslandi,“ segir hann.

Hann segir Arnarlax vera með allan búnað vottaðan á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins, samkvæmt norska staðlinum NS9415, enda gera íslensk stjórnvöld kröfu um það.

„Þarna þarf sérstaka vottun fyrir hvern stað og við erum með stöðvarskírteini fyrir alla staðina okkar.“

Þá er Arnarlax með markaðsvottun frá bandarísku Whole Foods verslunakeðjunni sem er helsti kaupandi afurða frá fyrirtækinu.

„Sú vottun er samt aðallega fyrir það fyrirtæki, en síðan erum við að vinna að því að fá umhverfisvottun frá ASC og reiknum með að það gerist á fyrri helmingi ársins 2018. Við erum búin að vinna að því í næstum því ár, en það er mikil vinna.“

[email protected]