Gengi bréfa verslunarkeðjunnar Debenhams lækkaði um 0,5% í gær og endaði í 89,5 pens á hlut en gengið hækkaði heldur þegar leið á daginn. Þetta er með því lægsta sem gengi bréfa félagsins hefur farið síðan það var skráð fyrir 18 mánuðum.

Í viðtali við Gunnar Sigurðsson, forstjóra Baugs, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að þetta hefur engin áhrif á áform þeirra en Baugur Group og Unity Investments eiga nú 13,5% hlut í Debenhams. Unity á 7% og Baugur 6,5% og hafa báðir aðilar keypt jafnt og þétt allan lækkunartímann. Bréf Debenhams hafa falli skarpt það sem af er árinu síðan félaginu var fleytt á 195 pensum á hlut. Síðan hefur félagið birt eina afkomuviðvörun.

"Að okkar mati er Debenhams á mjög lágu verði núna. Þegar verðið var komið niður í 130 pens töldum við verðið mjög hagstætt og hefur orðið enn áhugaverðara undanfarið. Við þekkjum mjög vel til rekstrar félagsins enda unnið með þeim mjög lengi í gegnum ýmsa samninga," sagði Gunnar og benti á að þeir séu með margar verslanir inni í Debenhams-verslunum. Aðspurður sagði hann að nálgun þeirra væri hugsuð sem stöðutaka og þeir litu svo á að verð á bréfum Debenhams í dag væri mjög lágt væri litið til hagnaðar.

"Þetta er svipuð stöðutaka og menn hafa séð til okkar áður. Við förum inn í félög sem við teljum var lágt verðmetin og þar sem við þekkjum vel til rekstrarins og við höfum trú á rekstri félagsins og undirstöðum þess. Um leið teljum við að verðið sé mjög hagkvæmt en við teljum að það geti tekið nokkurn tíma að koma fram," sagði Gunnar.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.