Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir í viðtali við Ríkisútvarpið að flokkurinn setji það skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi að næsta kjörtímabil verði styttra en þrjú og hálft ár. Í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 2 segir Birgitta að stutt kjörtímabil geti verið eitt og hálft eða tvö og hálft ár.

Hún leggur þó áherslu á að klára verði fjárlög fyrir áramót. Birgitta segir einnig að hvað sem gerist þá verður kjörtímabilið þrjú og hálft ár. Hún bætir við að alltaf eftir hvert einasta þing sé hlé - hvort sem það hlé sé nýtt í kosningar eða ekki. Hún sér það ekki sem mikið vandamál.

Stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar

Eins og áður hefur komið fram þá hafa Píratar rætt við Bjarta framtíð, Samfylkingu, Vinstri græn og Viðreisn um mögulegt samstarf og eins og frægt er orðið boðaði flokkurinn til stjórnarmyndunarviðræðna fyrir kosningar.

Ólíklegast að Sjálfstæðisflokkurinn vinni með Pírötum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er á öndverðu meiði en Birgitta hvað varðar lengd kjörtímabilsins. Hann segir einnig að það sé ólíklegast að Sjálfstæðisflokkurinn nái saman við Pírata og að líklegustu samstarfsflokkar væru Framsókn, Viðreisn og Björt framtíð.

Bjarni lagði einnig áherslu á að stjórnmálaflokkar lofuðu ekki of miklu fyrir kosningar. Haft er eftir honum að stjórnmálamenn hafi gert of mikið af því að að þeir geti leyst hvers manns vanda.