Suður-Kóreska fyrirtækið Pearl Abyss hyggst kaupa allt hlutafé í íslenska tölvuleikjaframleiðandanum CCP fyrir um 425 milljónir bandaríkjadala eða sem jafngildir 46 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Starfsemi CCP hérlendis verður óbreytt þrátt fyrir söluna en um 200 manns starfa fyrir fyrirtækið á Íslandi og um það bil 50 manns á Bretlandi og Shanghai.

Birg­ir Már Ragn­ars­son, stjórn­ar­formaður CCP seg­ir í samtali við Morgunblaðið að Novator Partners hafi orðið stærsti hlut­hafi CCP árið 2005 og hafi verið leiðandi fjár­fest­ir í fyr­ir­tæk­inu í rúm­lega 13 ár.

„Á þeim tíma hef­ur fyr­ir­tækið vaxið úr litlu tölvu­leikja­fyr­ir­tæki í að reka starfs­stöðvar víða um heim með hundruðum starfs­manna. Hilm­ar Veig­ar Pét­urs­son og allt hans skap­andi og ein­arða teymi hef­ur byggt upp fé­lag sem Novator læt­ur nú stolt í hend­ur Pe­arl Abyss. Sam­an verða þessi fé­lög firna­sterk og munu vera í góðri stöðu til að halda áfram að vaxa," seg­ir Birg­ir.

Þá segir hann jafnframt að þó svo að EVE Online hafi aldrei verið formlega settur á markað í Kóreu og þýddur yfir á þeirra tungumál þá séu nokkuð margir þar í landi sem spila ensku útgáfu leiksins. Fyrirtækið er með það í skoðun hvort leikurinn verði settur á markað í Kóreu.