Fyrr í dag kom út skýrslan Suðurnes í sókn. Í skýrslunni sem unnin var af Reykjavik Economics fyrir Íslandsbanka kemur fram að nafnverð íbúðarhúsnæðis hafi hækkað um 50% frá ársbyrjun 2016. Auk þess hefur veltan aukist um 65%.

Segir í skýrslunni að atvinnuleysi hefur minnkað og tekjuöflun heimila hefur verið að styrkjast sem rennir stoðum undir íbúðamarkaðinn á svæðinu. Samfélagið á Suðurnesjum er að ná fyrri styrk eftir efnahagsáfallið 2009 og brottför varnarliðsins árið 2006.

Mikill vöxtur hefur verið á Suðurnesjum undanfarin ár og má þar helst nefna mikinn vöxt flugumferðar um Keflavíkurflugvöll. Viðkomufarþegar hafa aldrei verið fleiri og ef fer fram sem horfir er mikil undirliggjandi eftirspurn eftir vinnuafli á svæðinu.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að ungt fólk hafi í æ ríkara mæki fest kaup á húsnæði. Fyrstu kaupendum hefur fjölgað hratt á svæðinu og má þar nefna að um fjórðungur allra kaupsamninga á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru vegna fyrstu kaupa. Skýsluna má lesa í heild sinni hér .