Gistinóttum á hótelum landsins fjölgaði um 15% á fyrstu sjö mánuðum ársins - frá janúar til júlí - en á sama tímabili í fyrra hafði gistinóttum fjölgað um 30% milli ára. Því hefur hægt talsvert á fjölgun gistinátta á milli ára miðað við árið í fyrra, þrátt fyrir að vöxturinn sé enn allverulegur. Aftur á móti fjölgaði ferðamönnum á Íslandi á fyrstu sjö mánuðum ársins tvöfalt hraðar eða um ríflega 31%. Í umfjöllun Elvars Orra Hreinssonar, sérfræðings í greiningu hjá Íslandsbanka , segir að það bendi til skemmri dvalartíma, en einnig gæti skýringin legið í ásóknar ferðamanna í annars konar gistiþjónustu, til að mynda Airbnb.

Mikil fjölgun á Suðurlandi og Suðurnesjum

Hann bendir enn fremur á það að vöxturinn fyrstu sjö mánuði ársins sé aðallega drifinn áfram af hótelum á Suðurnesjum, en þar seldust 77% fleiri gistinætur fyrstu sjö mánuði þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Á Suðurlandi var aukning um 29% á sama tímabili. Að mati Elvar benda þessar tölur á að talsverður uppgangur sé á hótelmarkaðnum á Suðurnesjum um þessar mundir.

Aftur á móti hefur hægt umtalsvert á fjölgun gistinátta á höfuðborgarsvæðinu. Ríflega 60% allra seldra gistinátta á Íslandi voru seldar á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tólf mánuðum Gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 10% á fyrstu sjö mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra hafði þeim fjölgað um 30%.. Að mati greiningaraðila skýrist það meðal annars vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu hefur framboð hótelherbergja ekki tekist að anna eftirspurn og nýting hótela á því svæði verði í hæstu hæðum allt árið í kring.

Hægari vöxtur eða samdráttur víða á landsbyggðinni

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá var samdráttur víða á landsbyggðinni í gistinóttum í júlímánuði - og sömu sögu má segja um júnímánuði. Elvar Orri bendir á að á Norðurlandi, á Vesturlandi og Vestfjörðum hefur seldum gistinóttum fjölgað um ríflega 4% á fyrstu sjö mánuðum ársins. Það sem af er þessu ári hefur gistinóttum dregið saman á Austurlandi sem nemur tæplega 1%. Að mati sérfræðings Íslandsbanka bendir þetta til þess að hótelmarkaðurinn á áðurgreindum svæðum eigi undir högg að sækja.

Neysluvenjur erlendra ferðamanna virðast vera að breytast á síðustu misserum og nú virðast teikn á lofti sem benda til hægari vaxtar á gistinætum. Til að mynda hafa gistinætur á hvern ferðamann dregist saman upp á síðkastðið. Hægt er að leiða líkum af því að neysluvenjur erlendra ferðamanna hafi dregist saman vegna gengisstyrkingu krónunnar, þrátt fyrir að dregist hafi úr styrkingunni. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins er bent á að ferðamenn breyta frekar neyslumynstrinu í stað þess að hætta við að koma til Íslands. Þeir reyna að draga úr neyslu og dvelja skemur. Þegar dvalarlengd ferðamanna styttist gefur það minni svigrúm til að fara út land, eðli málsins samkvæmt.

Kínverjarnir koma

Í umfjöllun Elvars Orra er einnig litið til þeirra þjóðerna sem dvelja hér landi. Þar segir að mesta hlutfallslega fjölgun í seldum gistinóttum á fyrstu sjö mánuðum ársins á sér stað hjá ferðamönnum frá Kína og öðrum Asíulöndum og þar á eftir frá Bandaríkjunum. „ Fjölgun seldra gistinótta á hótelum til Kínverja er talsvert umfram fjölgun þeirra til landsins. Getur það gefið til kynna að þeir séu í auknum mæli að nýta sér hótel umfram aðra gistikosti og/eða að þeir séu að dvelja lengur,“ að mati Elvars Orra.