Sumarbústaðir á Íslandi voru rúmlega 13 þúsund í lok ársins 2016 og hafði fjölgað um 74% frá árinu 1997. Fjölgunin var mun meiri í upphafi tímabilsins en á seinustu árum. Þannig fjölgaði sumarhúsum um rúm 16% milli áranna 2000 og 2005, en um tæp 9% á árunum 2010-2016.

Rúmlega helmingur sumarhúsa á landinu var á Suðurlandi í árslok 2016 og um fjórðungur á Vesturlandi. Um þrír fjórðu hlutar allra sumarhúsa á landinu er því á þessum tveimur svæðum. Heilt yfir hefur sala sumarhúsa aukist nokkuð jafnt og þétt allt frá árinu 2008 en það ár fækkaði viðskiptum verulega segir í Hagsjá Landsbankans .

Hröð fækkun viðskipta árið 2008

Sala sumarhúsa snarminnkaði á Suðurlandi árið 2008, en jókst svo aftur 2009. Á Vesturlandi fækkaði viðskiptum bæði 2008 og 2009 og sama má segja um Norðurland. Viðskiptum hefur fjölgað mest á eftirsóttustu svæðunum sem eru í um klukkutíma til eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni.

Verð á sumarbústöðum hefur hækkað í takt við aukna eftirspurn og á það einkum við um eftirsótta staði, t.d. á Suðurlandi, í Grímsnesi, á Þingvöllum og í Skorradal. Nokkur veltuaukning hefur orðið á markaði með sumarhús, einkum ódýrari sumarhús, síðustu ár.

Fyrir hrun var töluverð velta á markaði með dýrari sumarhús en eftirspurn eftir slíkum eignum hefur verið minni en var þá.

Í fyrra var mest hækkun á Suðurlandi

Frá árinu 2010 hefur verðþróunin verið stöðug upp á við á Suðurlandi og verðhækkunin var rúm 50% frá 2010 til 2017, þar af 16% milli 2016 og 2017. Verðið hækkaði mikið á Vesturlandi frá 2008 til 2011, en lækkaði þá aftur og hefur hækkað töluvert síðan, en þó aðeins um 1% milli 2016 og 2017 sem er mun minna en á Suðurlandi. Verð á Norðurlandi tók mikinn kipp frá 2009-2011 en fór stöðugt lækkandi fram til 2016 og hækkaði síðan um 13% í fyrra.

Sé meðalfermetraverð á öllum svæðum á landinu borið saman má sjá að það var hæst á Suðurlandi og að það var töluvert lægra á Vesturlandi og Norðurlandi. Verð á öðrum svæðum var töluvert lægra.

Fjármögnun kaupa á sumarhúsum hefur breyst. Eigið fé kaupenda virðist meira nú og lægra hlutfall viðskipta er fjármagnað með lánum. Þá hefur verið minna um að bændur skipuleggi spildur út úr jörðum sínum til að selja sem sumarhúsalóðir. Í dag eru til mörg skipulögð sumarhúsalönd á Íslandi en vísbendingar eru um að framkvæmdir á mörgum þeirra muni ekki fara sérlega hratt af stað á næstu árum.