Ásgeir Örn Þorsteinsson sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis segir sumarið hafa verið algera sprengju.

„Það er búið að vera svona 20-30% aukning heilt yfir hjá okkur að meðaltali frá áramótum.“

Framkvæmdir hafa áhrif

„Þetta var rosalega flott sumar, alger sprengja, veðrið var alveg að leika sér við okkur, alla vega seinni part sumars. Flugið til Húsavíkurað aukast gríðarlega, sérstaklega út af framkvæmdum, við förum með mikið af starfsmönnum í framkvæmdirnar þar. En við sjáum líka mikla aukningu í ferðamannastraum þangað, bæði innlendra og erlendra ferðamanna,“ segir Ásgeir Örn.

„Það er erfiðara að fá ferðamennina í innanlandsflugið heldur en í bílaleigur og rútur, það er bara þannig, en það hefur gengið þokkalega. Skipulagðar dagsferðir eru að aukast aðeins, en ekki jafn mikið og fólk sem er að ferðast á eigin vegum.“

Reyna að auka ferðamannastrauminn til Vestmannaeyja

Ásgeir Örn segir aukninguna á Húsavík vera um þúsund farþega á mánuði, farþegafjöldinn hafi farið úr 800 farþegum í 1.800 farþega á stuttum tíma. Einnig hafi verið fjölgun í Vestmannaeyjum.

„Þá sérstaklega yfir vetrartímann, þegar Herjólfur hættir að sigla í Landeyjahöfn. Okkur hefur gengið ágætlega að vinna með ferðaþjónustunni í Vestmannaeyjum, og erum við að reyna hvað við getum til að auka ferðamannastrauminn þangað,“ segir Ásgeir Örn.

Mikill uppgangur á Bíldudal

„Einnig finnum við fyrir því að það er mikil gróska í fiskeldinu á Bíldudal. Það er mikill uppgangur í atvinnulífinu þar. Ferðamannastraumurinn þangað er búinn að aukast mikið, og það er uppbyggingin í innviðunum, hótelbyggingar og bílaleigur að opna. Það er ekkert mjög langt síðan það var mjög erfitt að fá bílaleigubíla á Bíldudal, Tálknafirði, Patreksfirði og því svæði.“

Flugfélagið flýgur til Húsavíkur, Vestmannaeyja og Bíldudals eins og kemur fram að ofan, en einnig flýgur það tvisvar í viku yfir vetrartímann og einu sinni í viku á sumrin á Gjögur í Árneshreppi á Ströndum.

Niðurgreiðsla á sama tíma og gríðarleg skattlagning

„Það gengur mjög vel, farþegastreymið stendur reyndar í stað, en þetta er þjónusta við svæðið, vöruflutningar. Þó er aðeins um gönguhópa, en ferðamenn eru ekki í miklum mæli búnir að uppgötva staðinn,“ segir Ásgeir Örn.

„Það er verið að niðurgreiða þrjá af okkur áfangastöðum, Hornafjörð, Bíldudal og Gjögur. En skattlagning á innanlandsflug er náttúrulega gríðarleg. Við erum að horfa á mörg þúsund á hvern farþega, sem fer í skatta beint eða óbeint. Það eru flugvallargjöld, lendingargjöld, flugleiðsögugjöld og farþegaskattar sem kallast farþegagjöld.“