Borgarstjórn hefur samþykkt að hefja viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut. Markmið viðræðnanna fælist í því að að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði tillöguna fram, sem samþykkt var einróma, en hún segir að nauðsynlegur undirbúningur fyrir lagningu Sundabrautar hafi legið í dvala allt of lengi.

„Það verður að ljúka að fullu og án tafar því umhverfismati sem byrjað var á, gera umferðarlíkan miðað við breyttar forsendur, arðsemismat og velja bestu staðsetningu brautarinnar með tilliti til slíkra forsenda.

Valkostir útilokaðir af meirihluta

Þessi undirbúningsvinna tekur sinn tíma," er haft eftir Mörtu í fréttatilkynningu.

Þar bendir hún einnig á að nú þegar hafi farið fram mikil skipulagsvinna vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Gelgjutanga og á Gufunesi sem hafi útilokað einn af þeim valkostum sem helst komu til greina fyrir legu Sundabrautar.

Megum ekki sofna á verðinum

„Við megum ekki sofna á verðinum og útiloka þar með fleiri kosti sem koma til álita fyrir legu brautarinnar.

Þessir kostir þurfa að vera fyrir hendi þegar ekki verður lengur slegið á frest að hefjast handa við þessa samgöngubót sem er líklega ein sú mikilvægasta og arðbærasta sem nú koma til álita hér á landi".

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvalarvina um málið:

Upphaflega var um nokkra valkosti að ræða fyrir staðsetningu Sundabrautar en þeim hefur því miður farið fækkandi á síðustu árum og nú síðast hefur einn þessara kosta verið sleginn út af borðinu með samningi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Gelgjutanga.

Þá gerir aðalskipulagið 2010-2030 ekki ráð fyrir nema einni leið frá Kleppsvík yfir í Gufunes. Það er mikilvægt að sem flestir kostir komi til skoðunar þegar lega Sundabrautarinnar er skoðuð.

Brýnt er að borgaryfirvöld tryggi það að fleiri kostir verði ekki útilokaðir í náinni framtíð og þess vegna verður borgarstjórn að setja málið á dagskrá strax.

Mikilvægt er að tillagan dagi ekki uppi í borgarkerfinu eins og sambærileg tillaga gerði sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í borgarstjórn 2013.

Hugmyndum um Sundabraut var síðast slegið á frest með samgöngusamningi Reykjavíkurborgar og ríkisins árið 2012 um heilan áratug.

Nú á síðustu misserum hefur farið fram mikil skipulagsvinna í Elliðavogi og í Gufunesi og því  mikilvægt og löngu tímabært að ákveða endanlega legu og útfærslu brautarinnar svo aðrar skipulagsákvarðanir útiloki ekki hugsanlega besta kost í þeim efnum.