Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur opnað nýjan vef, skuldaklukkan.is, en vefsíðunni er ætlað að sýna almenningi opinberar skuldir „svo geti byrjað að safna fyrir sköttum framtíðarinnar,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá SUS.

„Ungir sjálfstæðismenn harma gríðarlega skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár. Gera má ráð fyrir að í árslok verði skuldir hins opinbera 2.400 milljarðar króna, eða um 30 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu,“ segir í tilkynningu frá SUS.

„Þá eru ótaldar skuldir opinberra fyrirtækja, svo sem orkufyrirtækja, þó að þær skuldbindingar séu í mörgum tilfellum með ábyrgð hins opinbera.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að skuldasöfnunin hafi verið gríðarleg síðustu ár og að skuldir hins opinbera hafi þannig hækkað um u.þ.b. 1.900 milljarða síðan árið 2005.

„Haldi skuldasöfnunin áfram með sama hraða á þessu ári munu skuldirnar aukast um 700 milljónir króna á hverjum einasta degi ársins,“ segir í tilkynningu SUS.

„Þessar skuldir munu lenda með fullum þunga á framtíðarkynslóðum Íslendinga. Ríki og sveitarfélög þurfa að draga mun meira úr útgjöldum sínum og selja eignir til að snúa þessari þróun við.“

Á fyrrnefndum vef eru síðan myndir af helstu ráðamönnum þjóðarinnar, s.s. ráðherrum ríkisstjórnarinnar og bæjarstjórum stærstu sveitafélaganna. Þar á meðal eru sjálfstæðismennirnir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Hægt er að sjá skuldaklukkuna HÉR .

Árni Sigfússon
Árni Sigfússon
© BIG (VB MYND/BIG)

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, er einn þeirra sem ungir sjálfstæðismenn telja ábyrga fyrir aukinni skuldasöfnun. Árni var formaður SUS á árunum 1987-89.