*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 5. mars 2012 09:04

SUS: Fíkniefnabann verði afnumið

Ungir sjálfstæðismenn telja að refsistefnan í fíkniefnamálum hafi beðið algert skipbrot og rétt sé að afnema bann við fíkniefnum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ungir sjálfstæðismenn telja að refsistefna sú sem rekin hefur verið í fíkniefnamálum hafi beðið algert skipbrot og telja því að afnema eigi bann við fíkniefnum.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS). Þar segir að á sama tíma og refsingar í fíkniefnamálum hafi verið þyngdar þá hefur neysla á fíkniefnum aukist. Jafnframt hafi samfélagsleg vandamál tengd fíkniefnaneyslu aukist, svo sem glæpir og heilbrigðisvandamál.

„Góður árangur hefur hins vegar náðst í því að minnka drykkju og reykingar unglinga án þess að grípa hafi þurft til banna og refsinga,“ segir í ályktuninni.

„Ungir sjálfstæðismenn vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Með afnámi fíkniefnabanns yrði fótunum kippt undan undirheimahagkerfi sem veltir tugum milljarða árlega. Að sama skapi myndu erlend glæpagengi strax missa áhuga á því að koma upp starfsemi á Íslandi. Jafnframt myndi þetta koma neyslunni upp á yfirborðið sem myndi auðvelda eftirlit og hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda vegna neyslunnar.“