Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), afhenti í gær Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fjárlagatillögur SUS vegna ársins 2013. Þetta er fjórða árið í röð sem ungir sjálfstæðismenn leggja fram fjárlagatillögur sínar.

Í tilkynningu frá SUS kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé áfram gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs.

„Ef fer sem horfir verður árið 2013 því sjötta árið í röð þar sem ríkið er rekið með tapi, með tilheyrandi kostnaði fyrir framtíðarskattgreiðendur,“ segir í tilkynningunni.

„Allt stefnir í að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2008 – 2013 verður tæpir 600 milljarðar króna. Stærsti hluti þess halla, eða um 380 milljarðar króna, hefur myndast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Reikningurinn verður sendur framtíðarskattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig óábyrgan rekstur vinstri manna á fjármálum ríkisins.“

Þá telur stjórn SUS að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins, án niðurskurðar í heilbrigðis-, velferðar- eða menntamálum, og leggur til í fjárlagatillögum sínum að útgjöld ríkisins verði lækkuð í það minnsta um 84,2 milljarða króna sem er nokkuð meira en SUS hefur lagt til fyrri ár.

„Verði farið að tillögum SUS má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs án skattahækkana vinstristjórnarinnar auk þess sem hægt væri að lækka skatta og hefja niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs,“ segir í tilkynningu SUS.

Samkvæmt skýrslu SUS, sem er tæpar 25 blaðsíður, er sem fyrr lagt til að skorið verði niður um 84,2 milljarða króna í beinum niðurskurði. Stærstur hluti þeirrar upphæðar, eða 25,3 milljarðar, heyrir undir mennta- og menningarráðuneytið þó ekki sé hreyft við menntamálum. Þá leggja ungir sjálfstæðismenn til að skorið verði niður um 24,4 milljarða af útgjöldum innanríkisráðuneytisins en þar vegur Jöfnunarsjóður sveitafélaga þyngst.