Sveitarfélög í nálægð við höfuðborgarsvæðið hafa ekki farið varhuga af uppgangi í þjóðfélaginu að undanförnu. Í Ölfusi og Reykjanesbæ segjast stjórnvöld verða vör við aukningu íbúa á svæðinu samhliða auknum framkvæmdum og uppbyggingu.

Uppbygging að taka við sér

Sveinn Númi Vilhjálmsson, yfirverkfræðingur og skipulagsfulltrúi í Reykjanesbæ, segir uppbyggingu á svæðinu hafa verið rólega undanfarin ár og einkennst aðallega af byggingu gagnavera á Ásbrú og kísilvera í Helguvík. „Bygging íbúðahúsa var mjög lítil á árunum 2008-2013 en er að taka við sér núna. Þá eru einnig framundan nokkrar stórar framkvæmdir á svæðinu utan þeirra stóru framkvæmda sem framundan eru í kringum Keflavíkurflugvöll. Til dæmis er reiknað með að hafin verði bygging Kísilvers í Helguvík og fljótlega þarf að byggja nýjan grunnskóla,“ segir Sveinn.

Spurður hvort hækkandi fasteignaverð og erfiðari leigumarkaður á höfuðborgarsvæðinu hafi einhver áhrif á uppbyggingu á svæðinu að undanförnu segist Sveinn Númi aðallega telja að gott atvinnuástand hafi áhrif á vaxandi uppbyggingu í dag og bendir sérstaklega á mikla fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli.

Áætlanir um 1.700-1.900 nýjar íbúðir

Í tillögu að aðalskipulagi Reykjanesbæjar fyrir tímabilið 2015-2030 eru settar fram áætlanir um eflingu byggðar og byggingu 1.700 til 1.900 nýrra íbúða og markvissa uppbyggingu verslunar og þjónustu.

Sérblað um fasteignir fylgir Viðskiptablaðinu í þessari viku. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að ýta á hlekkinn Tölublöð.