*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 15. mars 2017 18:50

Svanhildur Nanna nýr stjórnarformaður VÍS

Sjálfkjörið var í stjórn VÍS á aðalfundi félagsins í dag. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir er nýr formaður stjórnar.

Ritstjórn

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir var í dag kjörin formaður stjórnar VÍS, en sjálfkjörið var í stjórn félagsins á aðalfundi VÍS sem haldinn var í dag. Helga Hlín Hákonardóttir var kjörin varaformaður stjórnar. 

Aðrir stjórnarmenn eru þau Gestur Breiðfjörð Gestsson, Herdís Dröfn Fjeldsted og Valdimar Svavarsson. Varamenn í stjórn eru þau Andri Gunnarsson og Sandra Hlíf Ocares. 

Þá var samþykkt tillaga stjórnar um að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur kr. 0,46 á hlut fyrir árið 2016. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er um 1.023 milljónir króna. Arðsákvörðunardagur er 15. mars 2017 sem þýðir að skráðir hluthafar í lok dags 17. mars 2017 (arðsréttindadagur) eiga rétt á arðgreiðslu. Arðleysisdagur er því 16. mars 2017 sem er fyrsti viðskiptadagur eftir arðsákvörðunardag og útborgunardagur er 6. apríl 2017 (arðgreiðsludagur).

Aðalfundur samþykkti einnig að lækka hlutafé félagsins úr kr. 2.296.436.567 að nafnverði í kr. 2.223.497.541 að nafnverði, og að eigin hlutum félagsins að nafnverði kr. 72.939.026 sé þannig eytt.