Umboðsmaður Alþingis telur að svar Seðlabanka Íslands við erindi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, um afturköllun ákvörðunar um stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á fyrirtækið, hafi ekki verið leyst með fullnægjandi hætti úr erindi hans.  Bankinn hafi ekki tekið afstöðu til þeirra röksemda sem Þorsteinn Már vísaði til, meðal annars um afstöðu ríkissaksóknara til gildis laga og reglna um gjaldeyrismál sem fullnægjandi refsiheimilda. Það sé því álit hans að svar Seðlabankans hafi ekki verið í samræmi við lög. Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis sem birt var í dag .

Ofangreint álit umboðsmanns er tilkomið vegna Samherjamálsins svokallaða, sem Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um. Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2012 þegar Sérstakur saksóknari og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans framkvæmdu húsleit á skrifstofum Samherja á vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum. Fór það svo að lokum að Seðlabankinn sektaði Samherja um 15 milljónir króna vegna meintra brota. Í nóvember á síðasta ári staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um að bankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja. Nánar má lesa um sögu Samherjamálsins hér .

Umboðsmaður beinir því til Seðlabankans að taka erindi Þorsteins Más til nýrrar meðferðar, það er ef hann óskar eftir því. Verði meðferð málsins þá hagað í samræmi við sjónarmið sem gerð er grein fyrir í áliti Umboðsmanns Alþingis.